Skýr og vaxandi krafa um bætt jafnvægi milli vinnu og einkalífs

Í nýlegri blaðagrein reifar formaður BHM sameiginlegar kröfur aðildarfélaga bandalagsins sem miða að því að skapa fjölskylduvænan vinnumarkað hér á landi

19.3.2019

  • fjolskylduvaenn

„Innan stéttarfélaga og samtaka launafólks er uppi skýr og vaxandi krafa um bætt jafnvægi milli vinnu og einkalífs. Fólk vill sinna sínum störfum en jafnframt hafa svigrúm til að rækta sjálft sig og njóta samvista við sína nánustu. Kallað er eftir því að á vinnustöðum sé tekið tillit til mismunandi þarfa og aðstæðna starfsfólks. Einnig er kallað eftir því að skilin milli vinnu og frítíma verði gerð skýrari." 

Þetta segir formaður BHM, Þórunn Sveinbjarnardóttir, meðal annars í nýlegri grein í Morgunblaðinu. 

Tilefni greinarinnar eru væntanlegar kjaraviðræður 21 aðildarfélags BHM við ríki og sveitarfélög en kjarasamningar félaganna losna í lok þessa mánaðar. Á undanförnum vikum og mánuðum hafa aðildarfélögin unnið að því að móta sameiginlegar kröfur vegna viðræðnanna. Þessar sameiginlegu kröfur lúta m.a. að bættu jafnvægi milli vinnu og einkalífs og því hvernig skapa megi fjölskylduvænan vinnumarkað hér á landi. Nánar tiltekið vill BHM stytta vinnuvikuna, útvíkka rétt fólks til launaðrar fjarveru vegna fjölskylduaðstæðna, draga úr tekjutengingum barna- og vaxtabóta, bæta orlofsrétt, efla heilsuvernd og forvarnir á vinnustöðum (m.a. til að fyrirbyggja streitu), lengja fæðingarorlof og hækka hámarksgreiðslur til foreldra úr Fæðingarorlofssjóði. 

„BHM bindur vonir við að unnt verði að semja um framangreindar breytingar í komandi kjarviðræðum við ríki og sveitarfélög. Þátttaka á vinnumarkaði hér á landi er með því mesta sem þekkist. Í því ljósi er afar brýnt að skipulag vinnumarkaðarins og réttindi launafólks á honum stuðli að jafnvægi á milli atvinnu og einkalífs, óháð fjölskylduaðstæðum,“ segir Þórunn í niðurlagi greinarinnar. 

Greinin í heild sinni

Rétt er að geta þess að sameiginleg kröfugerð aðildarfélaga BHM er ítarleg og nær til fleiri þátta en nefndir eru hér að framan. Kröfur er varða bætt jafnvægi milli vinnu og einkalífs eru, með öðrum orðum, aðeins hluti sameiginlegra krafna félaganna.