Skýr vilji til að útrýma kynbundnum launamun

BHM fundaði með fulltrúum Sambands íslenskra sveitarfélaga

28.6.2016

Fulltrúar aðildarfélaga BHM og samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga hittust á fundi í dag til að ræða niðurstöðu kjarakönnunar BHM fyrir árið 2015. Fundurinn var haldinn að frumkvæði samninganefndar sambandsins en niðurstöður könnunarinnar benda til aukins launamunar kynjanna hjá sveitarfélögunum.

Á fundinum kom fram skýr vilji af hálfu allra til að ráðast að rótum vandans og útrýma kynbundnum launamun á vinnumarkaði. Fundarfólk var sammála um að við þetta yrði ekki unað. Vísbendingar eru um að kynbundin launamunur sé mismunandi milli sveitarfélaga og það þyrfti að greina sérstaklega. Fulltrúar BHM ítrekuðu mikilvægi þess að bandalagið fengi aðgang að launaupplýsingum sveitarfélaganna (líkt og gert er hjá ríkinu og Reykjavíkurborg). Aðeins þannig sé hægt að fá raunhæfa mynd af stöðunni hjá sveitarfélögunum.

Fundarfólk var á einu máli um að kjarasamningar sem gerðir voru í vor á milli aðildarfélaga BHM og Sambands íslenskra sveitarfélaga ættu að leiða til minnkandi launamunar kynjanna, m.a. vegna þess að samkvæmt þeim verður starfsmatskerfið SAMSTARF innleitt hjá flestum aðildarfélögum BHM.


Fréttir