Skýrsla kjaratölfræðinefndar um samningalotuna 2019–2020

16.9.2020

  • kjaratolfraedinefnd_skyrsla
    Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM, á kynningarfundinum í dag.

Kjaratölfræðinefnd birti í dag fyrstu skýrslu sína en nefndin var skipuð á síðasta ári til að draga saman og vinna talnaefni um launa- og efnahagsmál til undirbúnings og eftirfylgni með kjarasamningum. BHM á fulltrúa í nefndinni.

Í skýrslunni, sem ber titilinn Samningalotan 2019–2020, er meðal annars fjallað um áhrif kórónuveirufaraldursins á efnahag og vinnumarkað og viðbrögð stjórnvalda. Einnig er fjallað um kjarasamninga sem gerðir hafa verið á tímabilinu, helstu launabreytingar sem í þeim felast, styttingu vinnuvikunnar og fleiri atriði.

Hér má nálgast skýrsluna.

Á kynningarfundi sem efnt var til í dag í tengslum við útgáfu skýrslunnar sagði Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM, meðal annars: „Ég vil fyrir hönd BHM fagna því að kjaratölfræðinefnd hafi verið sett á fót og sé búin að skila sinni fyrstu skýrslu. Það eru merk tímamót á vinnumarkaði. Ég vona að í hönd fari nýir tímar þar sem við leggjum niður þann þjóðlega sið að þrefa um staðreyndir og komum vel undirbúin, báðum megin borðsins, til kjaraviðræðna.“

Gert ráð fyrir að nefndin birti tvær skýrslur á ári

Kjaratölfræðinefnd var stofnuð á síðasta ári og er ætlað að vera vettvangur samráðs milli aðila vinnumarkaðar. Nefndinni ber að stuðla að því að aðilar hafi sameiginlegan skilning á eðli, eiginleikum og þróun þeirra hagtalna sem mestu varða við samningagerðina. Gert er ráð fyrir að nefndin gefi út tvær skýrslur á ári.

Auk BHM eiga forsætisráðuneyti, félagsmálaráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti, Alþýðusamband Íslands, BSRB, Kennarasamband Íslands, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök atvinnulífsins og Hagstofa Íslands aðild að nefndinni. Félags- og barnamálaráðherra skipar nefndina til fjögurra ára í senn eftir tilnefningum þeirra sem eiga aðild að nefndinni, einn fulltrúa frá hverjum aðila. Ráðherra skipar jafnframt formann nefndarinnar án tilnefningar. Nefndin er hýst hjá Ríkissáttasemjara sem leggur til fundar- og starfsaðstöðu.

Fulltrúi BHM í nefndinni er Vilhjálmur Hilmarsson, hagfræðingur bandalagsins.

Tengdar fréttir:

Kjaratölfræðinefnd birtir sína fyrstu skýrslu á morgun.

Formaður BHM undirritaði samkomulag um Kjaratölfræðinefnd


Fréttir