Stjórnvöld þurfa að ákveða viðmið fyrir grunnatvinnuleysisbætur

Umsögn BHM um frumvarp til laga um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum um Ábyrgðasjóð launa. 151. löggjafarþing 2020-2021, 35. mál.

16.11.2020

Með frumvarpinu stendur meðal annars til að lengja það tímabil sem atvinnuleysisbætur eru greiddar, hækka lágmarksfjárhæðir tekjutengdra- og grunnatvinnuleysisbóta og hækka uppbót vegna framfærsluskyldu gagnvart börnum.

BHM fagnar því að tekið hefur verið tillit til þess sem ítrekað hefur verið bent á: Að hækka þurfi grunnatvinnuleysisbætur og hámark tekjutengdra atvinnuleysisbóta.

Á aðalfundi bandalagsins 2018 var meðal annars ályktað „að afnema beri hámark tekjutengdra atvinnuleysisbóta, sem greiddar eru fyrstu þrjá mánuði atvinnuleysis, og hækka grunnatvinnuleysisbætur þannig að þær dugi til framfærslu.“ Með það að markmiði að bæta afkomuöryggi fólks sem misst hefur vinnuna hefur bandalagið margoft ítrekað þessa kröfu síðan. Hún á sérstaklega við í þeirri efnahagskreppu sem sem þjóðin býr nú við vegna kórónuveirufaraldurs.

BHM fagnar því efni frumvarpsins og styður framgang þess að teknu tilliti til eftirfarandi athugasemdar.

Hvaða lægstu laun er átt við?

Í 3. og 4. gr. frumvarpsins er miðað við lægstu laun samkvæmt kjarasamningum hverju sinni. Lægstu laun eru breytileg eftir kjarasamningum og í sumum þeirra eru ákvæði um lágmarkstekjur þannig að greiða skuli uppbót á laun sem ná ekki tilteknum fjárhæðum. Þannig geta lágmarkslaun skv. kjarasamningi verið lægri en lágmarstekjur samkvæmt kjarasamningi. Telur BHM því heppilegra að löggjafinn taki afstöðu til þess við hvaða lægstu laun skuli miða. 


Fréttir