Stöndum vörð um frjáls og óháð stéttarfélög

Yfirlýsing frá BHM

3.6.2021

BHM hefur sent frá sér eftirfarandi yfirlýsingu:

Stéttarfélög eru hagsmunaverðir launafólks. Miklu skiptir að þau séu frjáls og óháð í sínum störfum og ekki ofurseld öðrum hagsmunum en sinna umbjóðenda. Leikreglur vinnumarkaðarins verða þannig að byggja á sanngirni, trúverðugleika og gagnsæi. Grímulausar tilraunir sumra atvinnurekenda til þess að grafa undan þessu fyrirkomulagi með stofnun „sýndar-stéttarfélaga“ (oft nefnd „gul stéttarfélög“) eru ámælisverðar. Nóg er nú samt, en plágur gerviverktöku, kennitöluflakks, félagslegra undirboða og réttindabrota gagnvart launafólki – og þá sérstaklega erlendu launafólki – hafa skaðað íslenskt atvinnulíf og samskipti á vinnumarkaði.

„Gulnun“ stéttarfélaga grefur undan áunnum réttindum

Hér á landi er stéttarfélagsþátttaka um 90%. Til samanburðar er hún aðeins um 10% í Bandaríkjunum og stór hluti hennar í „gulum stéttarfélögum“ sem heyra undir boðvald atvinnurekenda og starfa í þágu stórfyrirtækja á borð við Amazon eða Google. Á síðustu 30 árum hafa raunlaun á klukkustund (laun á föstu verðlagi) enda hækkað um 75% hér en einvörðungu um 22% á sama tímabili í Bandaríkjunum.

Mynd_m_yfirlysingu_03062021

Íslensk verkalýðshreyfing hefur m.a. fært okkur fæðingarorlof, veikindarétt, aukinn orlofsrétt, styttri vinnuviku og meiri kaupmátt launa. Ekkert af þessu kom af sjálfu sér. „Gulnun“ stéttarfélaga á Íslandi mun grafa undan öllum þessum áunnu réttindum, koma í veg fyrir styrkingu þeirra og hindra að launafólk fái notið aukinnar framleiðni og hagvaxtar í formi meiri kaupmáttar. Óháð stéttarfélög skipta íslenskt samfélag öllu máli. Grófum „leik“ í trássi við reglur, eins og t.d. Play Air virðist ástunda, verður mætt með þéttri vörn, samstilltri gagnsókn og af fullum krafti.


Fréttir