Stóra málið er hinn kynskipti vinnumarkaður

6.3.2020

 • 1100_2
  Brynhildur Flóvens, dósent við Háskóla Íslands, flytur erindi á fundinum.
 • 93_2
 • IMG_1121_2
  Dagný Aradóttir Pind, lögfræðingur BSRB.
 • 1098_2
 • 1101_2
 • 25_2
  Drífa Snædal, forseti ASÍ.
 • 99_2

Jafnlaunavottun mun aðeins leiðrétta lítinn hluta kynbundins launamunar. Stóra málið er hinn kynskipti vinnumarkaður. Hægt er að vinna bug á þeim launamun sem í honum felst með markvissum aðgerðum.

Þetta er meðal þess sem kom fram í erindi Dagnýjar Aradóttur Pind, lögfræðings BSRB, á hádegisverðarfundi sem samtök launafólks, Jafnréttisráð, Jafnréttisstofa og Kvenréttindafélag Íslands efndu til í gær í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi kvenna. Fundarstjóri var Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM.

Í erindi sínu fór Dagný yfir lagareglur sem kveða á um launajafnrétti og ræddi um jafnlaunastaðalinn sem lögfestur var árið 2017. Hún sagði að þótt jafnlaunastaðallinn hefði ýmsa kosti hefði hann jafnframt ýmsa galla og takmarkanir. Hann gæti aðeins leiðrétt lítinn hluta þess kynbundna launamunar sem væri fyrir hendi á íslenskum vinnumarkaði. Stóra málið væri hinn kynskipti vinnumarkaður. Til að leiðrétta þann launamun sem í honum felst þyrfti að grípa til markvissra aðgerða. Í þessu sambandi benti Dagný meðal annars á að Hagstofa Íslands byggi yfir gögnum sem gerðu mögulegt að bera saman karla- og kvennastéttir þvert yfir vinnumarkaðinn. Einnig mætti skoða kjarasamninga með tilliti til innbyggðrar mismununar. Þá kæmi til greina að útvíkka jafnlaunaregluna svokölluðu þannig að hún næði til fleiri en eins atvinnurekanda. 

Auk Dagnýjar fluttu þær Brynhildur Flóvens, dósent við Háskóla Íslands, og Drífa Snædal, forseti ASÍ, erindi á fundinum. Brynhildur fjallaði í sínu erindi um þá kerfislægu mismunun gegn konum sem finna má í íslensku samfélagi og spurði hvort unnt væri að beita löggjöf til að draga úr henni. Hún sagðist telja afar brýnt að löggjöfin tæki á þessari kerfislægu mismunun en ekki væri síður mikilvægt að setja ákvæði í lög um bann við svokallaðri fjölþættri mismunun, þ.e. mismunun sem byggist á ýmsum félagslegum þáttum auk kyns. Drífa benti á að þau úrræði sem hingað til hafi verið beitt til að jafna stöðu kynjanna hafi ekki dugað. Kynjakerfið væri lífseigt og í samfélaginu væru öfl sem vildu færa stöðu jafnréttismála aftur um hálfa öld. Engu að síður hafi konum tekist að komast til áhrifa í samfélaginu, t.d. innan verkalýðshreyfingarinnar. Vísasta leiðin til bættra samfélaga væri að efla konur, styrkja þær, mennta og hækka laun þeirra.

Árlega efna ASÍ, BHM, BSRB, Jafnréttisráð, Jafnréttisstofa, Kennarasamband Íslands og Kvenréttindafélag Íslands til opins fundar í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi kvenna, 8. mars. Yfirskrift fundarins í gær var „Baráttan heldur áfram! Kjarajafnrétti og ný jafnréttislög“ en fundurinn var haldinn á Grand hótel Reykjavík.

Hægt er að horfa á upptöku af fundinum með því að smella hér.