Tæplega 6% launamunur milli BHM-karla og BHM-kvenna hjá ríkinu

Kvennafrídagurinn er í dag

24.10.2019

  • kvennafri
    Mynd frá kvennafrídeginum 24. október 1975 þegar tugþúsundir kvenna söfnuðust saman í miðborg Reykjavíkur.

Karlar innan BHM sem starfa hjá ríkinu voru að meðaltali með 5,7% hærri heildarlaun en konur innan BHM sem starfa hjá ríkinu á fyrri helmingi þessa árs. Að meðaltali voru heildarlaun karlanna rúmlega 805 þúsund krónur á mánuði en heildarlaun kvennanna rúmlega 762 þúsund krónur. Dagvinnulaun karlanna voru að meðaltali 6,7% hærri en kvennanna, tæplega 680 þúsund krónur á mánuði á móti tæplega 637 þúsund krónum.

Launamunur hjá borginni 7%

Karlar innan BHM sem starfa hjá Reykjavíkurborg voru að meðaltali með 7% hærri heildarlaun en konur innan BHM sem starfa hjá borginni á fyrsta ársfjórðungi þessa árs. Að meðaltali voru heildarlaun karlanna um 733 þúsund krónur á mánuði en heildarlaun kvennanna rúmar 685 þúsund krónur á mánuði. Dagvinnulaun karlanna voru að meðaltali um 2% hærri en kvennanna, um 576 þúsund krónur á mánuði á móti tæplega 564 þúsund krónum.

Rétt er að taka fram að um er að ræða svokallaðan óleiðréttan launamun kynja en í því felst að ekki er tekið tillit til ýmissa þátta sem haft geta áhrif á laun, s.s. menntunar, starfsreynslu, stjórnunarábyrgðar o.s.frv. Borin eru saman laun fullvinnandi fólks og hafa hlutastörf verið umreiknuð í heil stöðugildi. Ekki liggja fyrir tölur um launamun kynja meðal félagsmanna aðildarfélaga BHM sem starfa hjá sveitarfélögunum og á almennum vinnumarkaði. BHM hefur gert samkomulag við fjármála- og efnahagsráðuneytið og Reykjavíkurborg um aðgang að gögnum um laun félagsmanna aðildarfélaga bandalagsins. Ekki er í gildi hliðstætt samkomulag við Samband íslenskra sveitarfélaga.

„Því miður staðfesta þessar tölur bara það sem við vitum, að enn er kynjunum mismunað í okkar ágæta samfélagi. Ef staða kynjanna væri raunverulega jöfn væri launamunurinn hverfandi. Það er því enn verk að vinna þótt barátta kvennahreyfingarinnar og samtaka launafólks á undanförnum áratugum hafi skilað miklum árangri,“ segir Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM.

Tugþúsundir kvenna lögðu niður vinnu

Í dag, 24. október, er Kvennafrídagurinn sem fyrst var haldinn árið 1975. Þá lögðu tugþúsundir kvenna um allt land niður vinnu til að mótmæla launa- og kjaramisrétti. Margar þeirra mættu einnig á frægan baráttufund í miðborg Reykjavíkur. Kvennafrídagurinn var haldinn aftur áratug síðar, 1985, og síðan 2005, 2010, 2016 og 2018 eða samtals sex sinnum. BHM hefur nokkrum sinnum tekið þátt í undirbúningi og skipulagningu vegna dagskrár á Kvennafrídaginn.

Þess ber að geta að í ár hafa ekki verið skipulögð formleg mótmæli eða dagskrá í tilefni dagsins.