Tannlæknafélag Íslands fær bráðabirgðaaðild að BHM

3.3.2021

  • tannlaeknafelag

Stjórn BHM hefur samþykkt að veita Tannlæknafélagi Íslands (TFÍ) bráðabirgðaaðild að bandalaginu í samræmi við ákvæði greinar 2.1. í lögum þess. Umsókn TFÍ um aðild að bandalaginu barst í síðasta mánuði en undir hana ritar formaður félagsins, Jóhanna Bryndís Bjarnadóttir. Verði hún samþykkt á aðalfundi BHM, sem haldinn verður 27. maí nk., bætist félagið í hóp 27 aðildarfélaga sem fyrir eru innan bandalagsins.

„Við fögnum af heilum hug umsókn Tannlæknafélagsins um aðild að BHM. Félagið verður án efa öflug viðbót við þá fjölbreyttu flóru fag- og stéttarfélaga háskólamenntaðs fólks sem er innan raða bandalagsins,“ segir Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM.

Samkvæmt lögum BHM, grein 2.1, skal umsókn félags um aðild að bandalaginu lögð fyrir aðalfund þess og telst hún fullgild að fengnu samþykki fundarins. Áður skal stjórn BHM kanna hvort umsóknin uppfylli skilyrði aðildar að bandalaginu. Sé umsóknin talin fullnægjandi getur stjórn bandalagsins veitt bráðabirgðaaðild fram að næsta aðalfundi en slík aðild veitir þó ekki atkvæðis-, kosningarétt né kjörgengi á þeim aðalfundi.


Fréttir