Telja styttri vinnuviku bjóða upp á aukin lífsgæði

12.3.2020

  • fjolskylduvaenn

Mikill meirihluti félagsmanna BHM (80%) telur að með styttingu vinnuvikunnar komist á betra jafnvægi á milli vinnu og einkalífs, starfsánægja þeirra yrði meiri og starfsandi á vinnustað yrði betri. Þá telur fólk jafnframt að andleg og líkamleg þreyta verði minni við lok vinnudags. Þetta kom fram í viðhorfskönnun sem BHM lét gera nýlega meðal félagsmanna sinna.

Í könnuninni kom jafnframt í ljós að meirihlutinn (60%) telur sig auðveldlega geta hagrætt störfum sínum þannig að verkefnin rúmist innan styttrar vinnuviku en 25% telja að það yrði erfitt.

Vilja sveigjanlegan vinnutíma

Rúmlega helmingur félagsmanna (52%) myndi kjósa þá útfærslu á styttingu vinnuvikunnar að hafa sveigjanlegt fyrirkomulag á vinnutíma, 25% myndu vilja hætta fyrr á föstudögum og 15% myndu vilja fara fyrr alla daga.

Þegar spurt var út í fleiri þætti sem gætu bætt jafnvægi milli vinnu og fjölskyldulífs svöruðu langflestir því að fækkun vinnustunda myndu bæta það (70%), en einnig lækkun starfshlutfalls (29%).

Könnunin staðfestir enn frekar vilja meirihluta félagsmanna BHM til að stytta vinnuvikuna. Aðeins 10% svöruðu spurningunni neitandi, 79% sögðu já og 11% sögðu að vinnuvikan hefði þegar verið stytt. Þessar niðurstöður eru nánast þær sömu og í sambærilegri könnun sem BHM lét gera árið 2017 en þá vildu 92% félagsmanna stytta vinnuvikuna. Sjá frétt um könnunina frá 2017 hér.

BHM og önnur heildarsamtök launafólks hafa lagt áherslu á styttingu vinnuvikunnar í viðleitni til að skapa fjölskylduvænan vinnumarkað og auðvelda fólki að samræma störf og einkalíf. Nú þegar hefur hluti aðildarfélaga BHM samið við ríkið um styttingu vinnuvikunnar fyrir dagvinnuhópa. Önnur félög hafa ekki undirritað samkomulag um slíkt en hafa samningsumboð til þess.

Könnunin var gerð af MMR dagana 14.–30. janúar 2020 og náði til félagsmanna allra 27 aðildarfélaga BHM sem eru samtals tæplega 16 þúsund. Svarhlutfallið var um 42%. Rétt er að taka fram að svör voru nokkuð mismunandi eftir aðildarfélögum, eftir aldri svarenda og fleiri bakgrunnsbreytum.