Þörf á betri útfærslu fyrir sjálfstætt starfandi og hámarksgreiðsla of lág

19.3.2020

  • bhm_myndir_fyrir_heimasidu-4

Umsögn BHM um frumvarp til breytinga á lögum um atvinnuleysistryggingar og um Ábyrgðarsjóð launa.

BHM styður frumvarp félags- og barnamálaráðherra um að vinnuveitendum verði gert kleift að minnka starfshlutfall fólks tímabundið og launatap greiðist úr Atvinnuleysistryggingasjóði.

BHM gerir þó athugasemd við að sett sé 650 þúsund króna hámark á greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði við þessar aðstæður. Það getur leitt til þess að úrræðið nýtist ekki sem skyldi á vinnumarkaði.

Lausnina þarf að sérsníða fyrir sjálfstætt starfandi

Í frumvarpinu er einnig ákvæði um sjálfstætt starfandi einstaklinga þar sem þeim er gert kleift að tilkynna um „verulegan samdrátt í rekstri“ og breytingu á reiknuðu endurgjaldi, þannig að þau geti öðlast rétt til atvinnuleysisbóta. Þetta ákvæði mun örugglega koma til móts við marga sjálfstætt starfandi á vinnumarkaði.

Hins vegar eru stórir hópar innan aðildarfélaga BHM sem munu verða fyrir verulegum áhrifum af ákvörðunum sem leiða af neyðarstigi Almannavarna. Má þar nefna leikara, hljómlistarmenn, leikstjóra, myndlistarmenn, sjúkraþjálfara og fleiri sem hafa lifibrauð sitt af sjálfstæðum rekstri. Margir í þessum hópi búa við ótryggt ráðningarsamband og óörugga verkefnastöðu. Tekjur þeirra eru oft óreglulegar og getur verið erfitt að áætla þær langt fram í tímann.

Fyrir þennan hóp er vandkvæðum bundið að standa mánaðarleg skil á staðgreiðslu til skattsins vegna reiknaðs endurgjalds. Ákjósanlegast væri því að hanna sérsniðna lausn fyrir sjálfstætt starfandi einstaklinga og hrinda henni í framkvæmd á komandi mánuðum.

Að öðrum kosti verður þessi hópur fyrir miklum tekjumissi vegna samkomubannsins og samdráttar í efnahagslífinu af völdum heimsfaraldursins. 

Réttur til greiðslna í sóttkví

Bandalag háskólamanna styður einnig frumvarp um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga í sóttkví, að tilskilinni einni breytingu. Sú breyting snýr að því að tryggja réttindi sjálfstætt starfandi einstaklinga sem skikkaðir eru í sóttkví og gera upp við skattyfirvöld í einni árlegri greiðslu. Sjá nánar í Pdf skjali hér.