Þróun atvinnuleysis meðal háskólamenntaðra áhyggjuefni

Atvinnulausum innan aðildarfélaga BHM fjölgar um rúmlega 122% milli ára í apríl

4.6.2020

Þróun atvinnuleysis meðal félagsmanna aðildarfélaga BHM lofar ekki góðu það sem af er ári. Í apríl voru 270 skráðir á atvinnuleysisskrá, en voru 213 í mars. Í apríl 2019 voru 122 einstaklingar innan BHM á atvinnuleysisskrá sem þýðir aukningu um rúmlega 122% á milli ára. Einnig er aukning á milli mánaða meðal þeirra sem eru á hlutabótum úr 533 í marsmánuði í 675 í apríl, af þeim eru 39% karlar og 61% konur.

Alls voru því 945 félagsmenn BHM skráðir atvinnulausir í apríl, annaðhvort á hlutabótum eða fullum atvinnuleysisbótum.

Skráð atvinnuleysi meðal fólks með háskólamenntun hefur jafnframt aldrei verið meira en nú. Alls 3.468 í mars og 4.064 í apríl 2020, af þeim eru 44% karlar og 56% konur. Á sama tíma í fyrra voru 1.724 háskólamenntaðir einstaklingar í atvinnuleit. Vert er að athuga að háskólamenntaðir á hlutabótum er ekki inni í þessum tölum.

„Þetta eru hrikalegar tölur sem valda BHM miklum áhyggjum,“ segir Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður Bandalags háskólamanna. „Verkefni stjórnvalda og fyrirtækja er að fjölga vaxtarsprotum í atvinnulífinu og efla opinbera þjónustu þannig að háskólamenntað fólk gangi ekki atvinnulaust þúsundum saman.“

Undanfarin ár hefur atvinnuleysi meðal háskólamenntaðra farið vaxandi og hefur BHM ítrekað lýst áhyggjum af þróuninni sem lesa má um nánar í þessari frétt.