Þurfum að ákveða hvernig við ætlum að bregðast við harkhagkerfinu

Málþing BHM um stöðu sjálfstætt starfandi háskólafólks

31.1.2020

 • bhm_grand_hotel-5
 • bhm_grand_hotel-17
 • bhm_grand_hotel-30
  Frá málþingi BHM um stöðu sjálfstætt starfandi háskólafólks sem haldið var 30. janúar sl. á Grand hótel Reykjavík.
 • bhm_grand_hotel-39
 • bhm_grand_hotel-38
 • bhm_grand_hotel-35
 • bhm_grand_hotel-25
 • bhm_grand_hotel-8
 • bhm_grand_hotel-32
 • bhm_grand_hotel-27
 • bhm_grand_hotel-26
 • bhm_grand_hotel-2
 • bhm_grand_hotel-12
 • bhm_grand_hotel-34
 • bhm_grand_hotel-16
 • bhm_grand_hotel-28
 • bhm_grand_hotel-18
 • bhm_grand_hotel-36
 • bhm_grand_hotel-37

Íslenskt samfélag þarf að ákveða hvernig það ætlar að bregðast við harkhagkerfinu svokallaða. Stéttarfélög þurfa að skilgreina hvaða hlutverki þau ætli að gegna gagnvart þeim sem eru sjálfstætt starfandi og hvaða þjónustu eigi að veita þessum hópi.

Þetta er meðal þess sem kom fram á málþingi BHM í gær um stöðu sjálfstætt starfandi háskólafólks. Yfirskrift málþingsins var „Lífið í harkinu – sjálfstætt starfandi háskólafólk í breyttum heimi.“  

Á málþinginu fluttu erindi þau Katrín Ólafsdóttir, lektor í hagfræði við HR; Kirstine Baloti, sérfræðingur stéttarfélagsins HK í Danmörku; og Andri Valur Ívarsson, lögmaður BHM. Fundarstjóri var Gunnlaugur Már Briem, varaformaður Félags sjúkraþjálfara, en málþingið fór fram á Grand hótel Reykjavík. 

Þróunin styttra á veg komin hér en í nágrannalöndunum

Í erindi sínu benti Katrín Ólafsdóttir á að með tilkomu nýrrar tækni, m.a. svokallaðra netvanga, væri nú mun einfaldara og ódýrara en áður fyrir fyrirtæki að útvista verkefnum. Fyrirtækin hefðu því vissa hvata til að útvista og væru í auknum mæli farin að gera það annars staðar í Evrópu og á Norðurlöndum. Hér á landi væri þessi þróun hins vegar stutt á veg komin. 

Einnig benti hún á að fólk sem væri „í harkinu“ væri síður í stéttarfélögum en fólk í föstum störfum. Annars staðar á Norðurlöndum sæjust þannig merki um dvínandi stéttarfélagsaðild. Hins vegar hefðu stéttarfélögin sums staðar áttað sig á því að þau þyrftu að bregðast við þróuninni með einhverjum hætti.

Katrín sagði að íslenskt samfélag þyrfti að ákveða hvort vinnumarkaður hér ætti áfram að byggja á hinu svokallaða norræna vinnumarkaðslíkani eða hvort leita ætti fyrirmynda um skipulagningu vinnumarkaðarins annars staðar, t.d. í Bandaríkjunum. Hún sagði að þetta væri spurning um val – íslenskt samfélag þyrfti að gera upp við sig hvernig það ætlaði að bregðast við harkhagkerfinu.

Starfrækir þjónustumiðstöð fyrir fólk „í harkinu“

Kirstine Baloti, sérfræðingur HK í Danmörku, kynnti í erindi sínu þá þjónustu sem HK veitir sjálfstætt starfandi félagsmönnum. Meðal annars hefur félagið farið þá leið að starfrækja sérstaka þjónustumiðstöð fyrir þennan hóp. Í raun er hér um að ræða fyrirtæki sem tekur að sér að vera milliliður milli félagsmanna og verkkaupa. Fyrirtækið ræður „sjálfstætt starfandi“ félagsmenn í vinnu, tryggir þeim tiltekin lágmarksréttindi og sér um samskipti við verkkaupa, skattyfirvöld o.fl.

Fara þarf markvisst yfir lagaumhverfið

Í máli Andra Vals Ívarssonar, lögmanns BHM, kom fram að aðilar vinnumarkaðarins og stjórnvöld þurfi í sameiningu að fara markvisst yfir lagaumhverfi sjálfstætt starfandi fólks og kanna hvort breytinga sé þörf. Í þessu sambandi megi ef til vill kanna hvort ástæða sé til að skilgreina í lögum nýtt form fyrir þátttöku á vinnumarkaði sem sé mitt á milli verktöku og ráðningarsambands. Dæmi séu um slíkt fyrirkomulag erlendis.

Andri Valur benti einnig á að á Norðurlöndum sé mjög hátt hlutfall vinnandi fólks í stéttarfélögum. Fjölgun sjálfstætt starfandi einstaklinga sé áskorun fyrir félögin því hættan sé sú að aðild að þeim fari minnkandi. Við þessu þurfi félögin að bregðast. Þau þurfi að skilgreina hvaða hlutverki þau ætli að gegna gagnvart sjálfstætt starfandi einstaklingum og hvaða þjónustu eigi að veita þessum hópi. 

Að framsöguerindum loknum fóru fram pallborðsumræður þar sem þau Katrín, Andri Valur og Bjarni Amby Lárusson, lögfræðingur hjá ríkisskattstjóra, svöruðu spurningum fundarmanna.

Þess skal getið að upptaka af málþinginu verður gerð aðgengileg á streymissíðu BHM áður en langt um líður.


Fréttir