Munum fylgjast grannt með þróuninni

Samnorræn ráðstefna um netvanga og stöðu sjálfstætt starfandi háskólafólks

2.9.2019

  • 20190902_102250

BHM mun fylgjast grannt með þróun netvanga, sem hafa milligöngu um kaup og sölu á sérfræðiþjónustu, og leitast við að tryggja kjör og réttindi félagsmanna sem hugsanlega munu starfa í gegnum slíka netvanga á komandi árum. Þetta er meðal þess sem kom fram í máli Þórunnar Sveinbjarnardóttur, formanns BHM, á ráðstefnu um netvanga sem bandalög háskólafólks á Norðurlöndum og Norræni nýsköpunarsjóðurinn (Nordic Innovation) efndu til í Malmö í dag. 

Tæplega eitthundrað manns frá Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi og Svíþjóð sóttu ráðstefnuna, þ. á m. fulltrúar stéttarfélaga og bandalaga háskólafólks, starfsmenn opinberra stofnana, forsvarsmenn netvanga, fræðimenn o.fl. Á ráðstefnunni var kynnt ný skýrsla um netvanga á Norðurlöndum sem unnin var að undirlagi bandalaga háskólafólks í löndunum fimm og fjármögnuð af Norræna nýsköpunarsjóðnum. Þar er því m.a. spáð að á næstu árum muni netvöngum vaxa fiskur um hrygg og að sjálfstætt starfandi háskólafólk muni í vaxandi mæli afla sér lífsviðurværis með vinnu gegnum netvanga.

Á ráðstefnunni voru einnig flutt erindi þar sem fjallað var um ýmis lagaleg atriði sem varða starfsemi netvanga, m.a. að hvaða marki vinnulöggjöf á Norðurlöndum taki mið af vexti og viðgangi þeirra. Fram kom að staða háskólafólks sem vinnur gegnum netvanga sé að vissu leyti óljós enda sé þetta fólk hvorki í hefðbundnu ráðningarsambandi við vinnuveitanda né heldur geti það talist sjálfstætt starfandi verktakar. Rætt var um að hugsanlega þyrfti að endurskoða löggjöfina og laga hana að breyttum aðstæðum, tækninýjungum og nýjum skiplagsformum á vinnumarkaði.

Í lok ráðstefnunnar svöruðu formenn norrænu bandalaganna spurningum fundarstjóra og ræddu um möguleg viðbrögð stéttarfélaga og samtaka þeirra við þróuninni.

Hvað eru netvangar?

Netvangar (e. digital platforms) eru vefsíður sem tengja saman kaupendur og seljendur vöru eða þjónustu. Í Evrópu, Bandaríkjunum og víðar færist í vöxt að háskólamenntað fólk taki að sér verkefni í gegnum netvanga.

 

 


Fréttir