Tilvísun til sameiginlegrar launastefnu ótímabær

Umsögn BHM um frumvarp til laga um kjararáð

22.12.2016

  • althingi

BHM gerir athugasemdir við tvö atriði í frumvarpi til laga um kjararáð sem nú er til meðferðar á Alþingi, en með því er stefnt að því að fækka verulega þeim sem kjararáð ákvarðar laun og önnur starfskjör.

Annars vegar telur bandalagið ekki nægilega skýrt hvaða viðmið kjararáð skuli nota við ákvarðanir sínar um launasetningu einstakra hópa sem undir það eiga að heyra. Í frumvarpinu er kveðið á um að ráðið skuli sjálft skilgreina viðmiðunarhópa og birta í úrskurði sínum tölulegar upplýsingar um laun og launaþróun þeirra.

Hins vegar bendir BHM á að þótt frumvarpið geri ráð fyrir því að kjararáð geti tekið mið af sameiginlegri launastefnu á vinnumarkaði þá liggi slík stefna ekki fyrir. Að mati bandalagsins væri eðlilegra að heildarsamkomulag á vinnumarkaði lægi fyrir á vettvangi salek-hópsins áður en löggjafinn færi að vísa í sameiginlega launastefnu.

Framangreindar athugasemdir koma fram í umsögn BHM um frumvarpið sem send hefur verið efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis. Frumvarpið var fyrst lagt fram á síðasta þingi en ekki tókst að afgreiða það fyrir þinglok í október. Það var lagt fram að nýju um miðjan desember og hafði þá tekið nokkrum breytingum. Samkvæmt dagskrá Alþingis er stefnt að því að ljúka afgreiðslu frumvarpsins með atkvæðagreiðslu í dag, 22. desember.

 


Fréttir