Tuttugu ára bið á enda

Alþingi samþykkir lengingu fæðingarorlofs

19.12.2019

  • fjolskylduvaenn

Alþingi hefur samþykkt breytingar á lögum um fæðingar- og foreldraorlof sem fela í sér að orlofið verður lengt í tíu mánuði frá og með 1. janúar 2020 og í tólf mánuði frá og með 1. janúar 2021. BHM fagnar þessum breytingum enda hefur bandalagið lengi barist fyrir lengingu fæðingarorlofsins.

„Það er auðvitað fagnaðarefni að Alþingi Íslendinga hafi nú loksins, tuttugu árum eru eftir að lög um fæðingar- og foreldraorlof voru sett, ákveðið að lengja orlofið í tólf mánuði,“ segir Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM. „Hér á landi hefur fæðingarorlofið verið mun styttra en annars staðar á Norðurlöndum en með þessum breytingum verður lengd þess svipuð og í Noregi og Danmörku. Um leið og BHM fagnar þessum áfanga bendum við á að það er brýnt að hækka hámarksgreiðslur til foreldra í fæðingarorlofi til að stuðla að því að lögin þjóni betur tvíþættu markmiði sínu.“

Ráðherra geri tillögu til Alþingis um skiptinguna

Breytt lög kveða á um að foreldrar eigi hvort um sig sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs í allt að fjóra mánuði vegna fæðingar, frumættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur á árinu 2020. Þessi réttur er ekki framseljanlegur. Auk þessi eigi foreldrar sameiginlegan rétt á tveimur mánuðum til viðbótar. Í bráðabirgðaákvæði er mælt fyrir um að ráðherra skuli í október á næsta ári leggja fram frumvarp á Alþingi til laga þar sem kveðið verði á um að foreldrar barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur á árinu 2021 og síðar skuli eiga rétt á tólf mánaða fæðingarorlofi. Tekið er fram að í frumvarpi ráðherrans skuli kveðið á um skiptingu orlofsins milli foreldra.

Í umsögn BHM um frumvarp til laganna er vísað í skýrslu starfshóps um framtíðarstefnu í fæðingarlofsmálum frá árinu 2016. Hópurinn lagði til að orlofið yrði lengt í tólf mánuði og að skipting þessi milli foreldra yrði þannig að hvort foreldri fengi fimm mánuði og svo yrði sameiginlegur réttur tveir mánuðir til viðbótar. Fulltrúi BHM í starfshópnum lét bóka sérstaklega í skýrslunni að því markmiði laganna að gera foreldrum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf yrði best náð með því að skipta orlofinu jafnt milli foreldra.

Lengingu verði fylgt eftir með hækkun hámarksgreiðslna

BHM bendir í umsögn sinni á mikilvægi þess að viðræður verði hafnar milli ríkis og sveitarfélaga um möguleika barna á að hefja leikskóladvöl við 12 mánaða aldur. Foreldrar sem hafi tæmt rétt sinn til fæðingarorlofs þurfi að eiga kost á tryggri dagvistun barns til að geta snúið aftur til sinna starfa. Þá er í umsögninni bent á að í kjölfar efnahagshrunsins árið 2008 hafi hámarksgreiðslur til foreldra í fæðingarorlofi verið lækkaðar umtalsvert og hafi ekki náð fyrri fjárhæðum sé tekið mið af verðlagsþróun. Afleiðingin hafi meðal annars orðið sú að foreldrar hafi ekki nýtt fæðingarorlof í sama mæli og áður en það eigi fyrst og fremst við um feður. Mikilvægt sé að fylgja lengingu fæðingarorlofsins eftir með hækkun hámarksgreiðslna til foreldra.


Fréttir