Umsvif netvanga munu vaxa á næstu árum

28.8.2019

  • platform_mynd

Um 4% háskólamenntaðra sérfræðinga á Norðurlöndum eru sjálfstætt starfandi. Á næstu árum mun þessi hópur í vaxandi mæli afla sér lífsviðurværis með því að vinna gegnum „netvanga“ (e. digital platforms). Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu um netvanga á Norðurlöndum sem bandalög háskólafólks í Danmörku, Finnlandi, Noregi, Svíþjóð og Íslandi létu vinna með stuðningi frá Norræna nýsköpunarsjóðnum.

Einn grunnþáttur hins svokallaða deilihagkerfis (e. sharing economy) eru vefsíður sem tengja saman kaupendur og seljendur vöru eða þjónustu. Slíkar vefsíður kallast „netvangar“ á íslensku. Dæmi um þekkta netvanga eru t.d. Airbnb og Uber en einnig eru til netvangar sem hafa milligöngu um þjónustu sem byggir á sérhæfðri þekkingu af ýmsu tagi. Slíka netvanga mætti kalla „þekkingarnetvanga“. Í Evrópu, Bandaríkjunum og víðar færist í vöxt að háskólamenntað fólk taki að sér verkefni í gegnum þekkingarnetvanga. Þetta fólk er ýmist í föstum störfum og vinnur sjálfstætt aukalega eða er eingöngu sjálfstætt starfandi.

Í skýrslunni, sem unnin er af fyrirtækinu Samfunnsøkonomisk analyse í samstarfi við norsku rannsóknarstofnunina Fafo, kemur fram að enn sem komið er vinna mjög fáir íbúar Norðurlanda verkefni gegnum netvanga eða aðeins á bilinu 0,3–2,5% vinnuaflsins. Hins vegar telja skýrsluhöfundar að umsvif netvanga muni vaxa á næstu árum enda eru fyrirtæki talin geta haft ávinning af því að útvista verkefnum gegnum þá. Einnig er í skýrslunni bent á að 4% háskólamenntaðra sérfræðinga á Norðurlöndum séu sjálfstætt starfandi og að þessi hópur muni í vaxandi mæli afla sér lífsviðurværis með vinnu gegnum netvanga.

Fram kemur að ef umsvif netvanga aukast þá gæti það vegið að grunnstoðum norræns vinnumarkaðar sem m.a. eru mikil og almenn stéttarfélagsaðild, miðlægir kjarasamningar og víðtæk réttindi launafólks sem byggjast á ráðningarsambandi milli þess og vinnuveitenda. Á móti kemur að stéttarfélög á Norðurlöndum eru nú í vaxandi mæli farin að beita sér fyrir bættum réttindum sjálfstætt starfandi félagsmanna.

Skýrslan verður kynnt og rædd á sameiginlegri ráðstefnu norrænu bandalaganna sem haldin verður í Malmö 2. september nk.

Skýrslan í heild sinni


Fréttir