Úrræðið má ekki binda launafólk við vinnuveitendur

Umsögn BHM um greiðslur hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti

2.6.2020

Markmið þessara laga er meðal annars að tryggja réttindi launafólks. Því vill BHM leggja til nokkrar breytingar á frumvarpinu svo að réttarstaða launafólks gagnvart vinnuveitanda sé skýr ef vinnuveitandi er að nýta úrræðið.

Réttur launafólks gagnvart stuðningi ríkisstjórnar við atvinnurekendur

Í fyrsta lagi leggur BHM til að því skilyrði verði bætt við lögin að atvinnurekandi sem sæki um stuðning verði að vera í skilum með launatengd gjöld.

BHM telur jafnframt mikilvægt að í 11. gr. verði kveðið skýrt á um að launamaður eigi rétt á að fara í nýtt starf bjóðist það á uppsagnarfresti sé atvinnurekandi að nýta úrræði ríkisstjórnar. Úrræðið hlýtur í sjálfu sér að losa starfsmann undan þeirri skyldu að vinna út uppsagnarfrest bjóðist honum annað starf en ekki binda hann við fyrirtækið svo hann missi jafnvel af atvinnutækifærum annars staðar.

BHM vill jafnframt að skýrt verði kveðið á um að launamaður sem hefur verið sagt upp starfi sínu og vinnuveitandi hans fær styrk frá ríkinu til að greiða uppsagnafrestinn þurfi ekki að vinna fulla vinnu. Launamaður sem er að vinna uppsagnarfrest á ekki að gjalda þess að fullu ef vinnuveitandi getur ekki greitt laun, hann á einnig að njóta styrksins með því að vinna t.d. 25% vinnu ef vinnuveitandi greiðir aðeins 25% launa. Með þessu móti getur starfsmaður leitað að, og sótt um, önnur störf á uppsagnarfresti auk þess að takast á við áfallið sem atvinnumissir er. Það getur heldur ekki talist eðlilegt að fyrirtæki geti farið fram á 100% vinnuframlag starfsfólks á uppsagnarfresti en einungis borgað um 25% af launakostnaði.

BHM lýsir jafnframt yfir áhyggjum af foreldrum í fæðingarorlofi sem er sagt upp störfum af atvinnurekanda sem nýtir þetta úrræði. BHM leggur til að það verði í höndum launamanns hverju sinni að ákveða hvort hann fresti töku fæðingarorlofs á meðan á uppsagnarfresti stendur.

Að lokum átelur BHM stjórnvöld fyrir að hafa eingöngu haft samráð við Alþýðusamband íslands við gerð frumvarpsins, en ekki önnur heildarsamtök launafólks.

Umsögnina má lesa í heild sinni hér.