Chat with us, powered by LiveChat

Vandanum frestað fram á næsta kjörtímabil

Umsögn BHM um fjármálastefnu 2022-2026

18.1.2022

  • COVID-19: Hagnýtar upplýsingar fyrir félagsmenn og reiknivél
    Upplýsingar fyrir félagsmenn um COVID-19

Stjórnvöld verða að taka á fjárhagsvanda sveitarfélaga og styrkja tekjustofna þeirra til að gera þeim kleift að standa undir nauðsynlegri þjónustu. Taka þarf þá á undirliggjandi afkomuhalla hins opinbera strax á næstu árum með aukinni skattlagningu á fjármagn og eignir. Verði það ekki gert mun koma í hlut næstu ríkisstjórnar að taka á vandanum enda stefnir í stóraukna skuldasöfnun ef tekjuöflun verður ekki aukin. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í umsögn BHM um fjármálastefnu 2022-2026.

Fjármálaráðuneytið hefur varað við stóraukinni skuldasöfnun

Fjármálaráðuneytið varaði við stóraukinni skuldasöfnun að óbreyttu skattkerfi í skýrslu sinni um langtímahorfur í opinberum fjármálum frá 2021. Tekjustofnar hafa enda verið veiktir töluvert undanfarið en þar ber hæst breyting á tekjuskatti einstaklinga, lækkun bankaskatts og tryggingagjalds, hækkun á frítekjumarki fjármagnstekna og hækkun á skattfrelsismarki erfðafjárskatts. Horfur eru þá um að fólki á vinnufærum aldri muni fækka mjög hlutfallslega á næstu áratugum, framleiðni minnka og útgjöld til heilbrigðismála og almannatrygginga stóraukast.

Í framlagðri stefnu eru ekki boðaðar aðgerðir í til að taka á þeim vanda sem blasir við. Tekjur á borð við sölu eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka munu duga skammt og óljóst er með áhrif skattkerfisbreytinga tengt orkuskiptum í samgöngum. Þá er eingöngu fjallað lauslega um skattheimtu vegna arðsemi stafrænna lausna.

Að mati bandalagsins skiptir miklu að tekjuöflun ríkisins í formi skattlagningar fjármagns og eigna verði styrkt til að standa undir auknum útgjöldum og tryggja sjálfbærni á nýjan leik. Þangað verður tekjuaukningin fyrst og fremst sótt en ekkert svigrúm er til að leggja meiri byrðar á launafólk með millitekjur.

Afkoma sveitarfélaga aðeins verið jákvæð í átta ár af fjörutíu

Mörg sveitarfélög hafa barist í bökkum undanfarin ár en afkoma sveitarfélagastigsins hefur aðeins verið átta sinnum verið jákvæð á síðustu fjörutíu árum. Horfur eru um áframhaldandi afkomuhalla á tíma stefnunnar og fjárfestingastig verður langt undir sögulegu meðaltali ef fer fram sem horfir.

Fjárhagsleg staða sveitarfélaga er mikið áhyggjuefni að mati BHM og sérstaklega í ljósi þeirra mikilvægu verkefna sem sveitarfélögin sinna en þau standa nú m.a. undir 75% af útgjöldum hins opinbera til samneyslu í menningar- íþrótta og tómstundamálum og 73% í menntamálum. Á tímabilinu 2009-2020 jukust framlög sveitarfélaga til örorku og fötlunar þá um 410% að raunvirði.

Ljóst er að erfið samfélagsleg verkefni bíða sveitarfélaganna í kjölfar heimsfaraldurs en á móti er geta þeirra til tekjuöflunar takmörkuð. Í því samhengi ber að nefna að til stóð að sveitarfélögin fengju hlutdeild af gistináttaskatti þegar honum var komið á, en nú hefur verið gert hlé á þeirri innheimtu til ársloka 2023. Það eru mikil vonbrigði að ekki standi til að bæta þann tekjumissi upp. Er það mat BHM að stjórnvöld verði að bregðast við vanda sveitarfélaganna sem fyrst.

Um þetta og afstöðu BHM til fleiri þátta m.a. framleiðni hjá hinuopinbera, launastigs hjá sveitarfélögum, nýsköpunar og fjármálareglna má lesa í umsögn bandalagsins HÉR.


Fréttir