„Við þurfum að vera virk í opinberri umræðu og taka þátt í að móta hugmyndirnar til þess að umskiptin verði sanngjörn“

Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM, tók þátt í málstofu um sanngjörn umskipti í loftslagsmálum

1.10.2020

  • Þórunn Sveinbjarnardóttir
    thorunn_9604

Það er löngu ljóst að gríðarlegar breytingar munu verða á samfélögum og vinnumarkaði á næstu árum vegna aðgerða stjórnvalda í loftslagsmálum um heim allan. Stefnan er sett á sjálfbæra og ábyrga framleiðslu og neyslu sem þýðir að störf munu taka breytingum, mörg verða lögð niður og ný verða til. Þessar aðgerðir og afleiðingar þeirra kalla því einnig á sanngjörn umskipti. En það er stefnumótun sem tekur tillit til fólks sem þarf tækifæri til símenntunar og þjálfunar til að takast á við nýtt umhverfi.

Sú ákvörðun var tekin fyrir nokkru hjá Norræna verkalýðssambandinu (NFS) að skrifa skýrslu um stöðu loftslagsmála og hlutverk stéttarfélaga fyrir hvert af Norðurlöndunum í samstarfi við DGB, ein stærstu heildarsamtök launafólks í Þýskalandi. Á þessu ári hafa því BHM, BSRB og ASÍ unnið að skýrslu í samstarfi við DGB þar sem staða loftslagsmála á Íslandi er reifuð og fjallað um hlutverk stéttarfélaga fyrir sanngjörn umskipti  hér á landi. Skýrslur allra Norðurlandanna liggja nú fyrir og verður fjallað um þær á haustfundi NFS sem haldinn verður 17. nóvember næstkomandi. Að því loknu verður skýrslunum og samantekt skilað til Norrænu ráðherranefndarinnar og Norðurlandaráðs. Í kjölfarið mun frekari kynning á skýrslunni fara fram hér á landi.

Ráðstefnan Global Green Deals Forum var haldin þann 1. október í tilefni af því að skýrslurnar eru tilbúnar og í tilefni af því að framkvæmdastjórn ESB er búin að kynna Green Deal fyrir sambandinu. Á ráðstefnunni voru meðal dagskrárliða málstofa með aðilum frá Norðurlöndunum og Þýskalandi þar sem rædd voru sanngjörn umskipti í loftslagsmálum og hlutverk stéttarfélaga. Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM, sem tók þátt í gerð íslensku skýrslunnar var beðin um að taka þátt í málstofunni og ræða þau atriði sem henni þóttu koma hvað sterkast fram í verkefninu.

Djúp þekking innan stéttarfélaga og þau gegna lykilhlutverki

Þórunn sagði að innan stéttarfélaganna væri til staðar djúp þekking á því hvernig ætti að taka á sanngjörnum umskiptum úr eldsneytishagkerfinu yfir í grænt hagkerfi og að þar gegndu stéttarfélögin lykilhlutverki. Aðilar hafi skipst á mikilli þekkingu undanfarna mánuði og lært mikið hver af öðrum við vinnuna. Samstarfið hafi jafnframt verið góð áminning fyrir alla um hve mikilvægu hlutverki stéttarfélögin hafa að gegna í opinberri umræðu um loftslagsmál og sanngjörn umskipti. Þau þurfi að tala á skýran hátt til síns fólks og segja þeim af hverju þátttaka stéttarfélaga skiptir máli.

„Við á Norðurlöndunum og í Þýskalandi erum öll að takast á við sömu vandamál og þurfum að vera virk í umræðunni út á við og inn á við,“ sagði Þórunn.

Þórunn sagði að þátttaka sem flestra í samfélaginu í opinberri umræðu um þessi mál væri nauðsynleg. En hún hnykkti jafnframt á því að stéttarfélög gegndu ábyrgðarhlutverki og þyrftu að vera í samræðu við stjórnvöld, hafa áhrif á stefnumótunina og taka virkan þátt í umbreytingunni til þess að hún yrði sanngjörn. 


Fréttir