Viðskiptaráð í gömlum stellingum

Yfirlýsing frá Bandalagi háskólamanna

30.3.2020

Stjórn BHM mótmælir harðlega tillögum Viðskiptaráðs um að launakjör opinberra starfsmanna og starfshlutföll verði skert vegna þeirra aðstæðna sem skapast hafa af völdum COVID-19 faraldursins. Að mati BHM eru tillögurnar vanhugsaðar og myndu valda stórskaða kæmu þær til framkvæmda. Það veldur vonbrigðum að Viðskiptaráð skuli setja sig í gamlar stellingar gagnvart hinu opinbera við þessar aðstæður í samfélaginu.

Mikið mæðir nú á starfsfólki ríkis og sveitarfélaga, einkum þeim sem sinna framlínustörfum í heilbrigðis- og menntakerfinu en einnig þeim sem sinna margvíslegri stjórnsýslu, stoðþjónustu og fleiri störfum.

Faraldurinn bætist ofan á það álag sem fyrir var í þessum geirum og öllum er kunnugt um. Það vekur furðu að Viðskiptaráð skuli við þessar aðstæður kjósa að fara fram með kröfur um enn meiri niðurskurð hjá hinu opinbera. Ljóst er að slíkar ráðstafanir gætu lamað lífsnauðsynlega þjónustu og myndu valda miklum samfélagslegum skaða.

Vegna ástandsins hafa verkefni dregist verulega saman hjá mörgum fyrirtækjum í einkageiranum eða jafnvel horfið alveg. Ríkisvaldið kemur til móts við fyrirtækin með því að greiða laun starfsmanna að stórum hluta, með frestun eða niðurfellingu opinberra gjalda, með ríkisábyrgðum á lánveitingum og fleiri ráðstöfunum. 

Hjá mörgum opinberum stofnunum hefur verkefnunum hins vegar fjölgað vegna kórónafaraldursins. Það skýtur skökku við og er ámælisvert að Viðskiptaráð skuli við þessar aðstæður krefjast launalækkana og skertra starfshlutfalla hjá opinberum starfsmönnum. Kröftum samtaka á borð við Viðskiptaráð væri betur varið í önnur verkefni en að beita sér fyrir niðurskurði opinberrar þjónustu á víðsjárverðum tímum.