Vilja að réttur til fjarvinnu verði tryggður í kjarasamningum

Könnun BHM um fjarvinnu háskólamenntaðra

10.3.2021

  • mynd_konnun
    Smellið á myndina til að stækka hana.

Meira en 60% svarenda í könnun sem BHM gerði nýlega meðal félagsmanna aðildarfélaga sinna telja mikilvægt að bandalagið beiti sér fyrir því að réttur til að vinna að heiman verði tryggður í næstu kjarasamningum. Þá telja meira en 70% svarenda mikilvægt að kjarasamningar kveði skýrt á um að vinnuveitandi skuli greiða fyrir og útvega búnað sem nauðsynlegur er vegna fjarvinnu.

Um er að ræða vefkönnun meðal félagsmanna aðildarfélaga BHM sem eru samtals tæplega 16 þúsund. Spurt var um ýmis atriði sem tengjast fjarvinnu félagsmanna og fleira. Könnunin var gerð á tímabilinu 25. febrúar til 4. mars og var svarhlutfallið 26% en rúmlega 4.000 manns svöruðu könnuninni. 

Vilhjálmur Hilmarsson, hagfræðingur BHM, kynnti niðurstöður könnunarinnar á opnum veffundi BHM miðvikudaginn 10. mars. Hér má nálgast glærur Vilhjálms.

Staðan gjörbreytt vegna kórónuveirufaraldursins

Í kjölfar kórónuveirufaraldursins hefur fjarvinna færst mjög í vöxt í nær öllum atvinnugreinum en þessi þróun hefur einkum haft áhrif á starfsaðstæður háskólamenntaðs fólks. Í könnuninni kom fram að svarendur höfðu almennt litla reynslu af fjarvinnu áður en kórónuveirufaraldurinn skall á. Þannig höfðu einungis 16% unnið að einhverju leyti að heiman í dæmigerðri vinnuviku áður en faraldurinn hófst. Ekki kemur á óvart að staðan hefur gjörbreyst á undanförnum mánuðum og samsvarandi hlutfall er nú 74%.

Í ljós kom að yfirgnæfandi meirihluti svarenda (80%) telur sig geta sinnt vinnu sinni að heiman að einhverju eða öllu leyti og um helmingur segist geta sinnt flestum eða öllum vinnutengdum verkefnum að heiman. Þegar spurt var um að hve miklu eða litlu leyti fólk myndi vilja vinna að heiman framvegis, fengi það sjálft að ráða, kom í ljós að um helmingur getur hugsað sér að sinna sumum verkefnum að heiman og um fjórðungur mörgum verkefnum. Einungis 3% vilja vinna alfarið að heiman og einn af hverjum fimm vill aðeins vinna að heiman ef aðstæður krefjast þess.

Betri einbeiting og meiri afköst í fjarvinnu

Um 62% svarenda telja sig ná betri einbeitingu þegar unnið er að heiman en þegar unnið er á vinnustaðnum og 55% telja að afköstin séu meiri heima við en á vinnustað. Athygli vekur að hlutfallslega fleiri konur en karlar telja bæði einbeitingu og afköst betri í fjarvinnu en þegar unnið er á vinnustað. Þannig segjast um 66% kvenkyns svarenda frekar eða mjög sammála því að betri einbeiting náist þegar unnið er að heiman og 60% þeirra segjast frekar eða mjög sammála því að afköstin séu meiri. Samsvarandi hlutföll fyrir karlkyns svarendur eru 53% og 45%.

Ef horft er til helstu galla fjarvinnu frá sjónarhóli starfsmanna má nefna að allmargir svarendur telja sig vinna lengri vinnudaga þegar þeir vinna að heiman en á vinnustaðnum. Þá segja 57% svarenda að aðstaða til vinnu sé verri heima fyrir en á vinnustaðnum. Athygli vekur að 52% sinna meginhluta verkefna í stofunni eða eldhúsinu. Nokkur misbrestur er á því að vinnuveitendur útvegi nauðsynlegan búnað vegna fjarvinnu. Eins og getið er um hér að framan telja meira en 70% svarenda mikilvægt að kjarasamningar kveði skýrt á um að vinnuveitandi skuli greiða fyrir og útvega búnað sem nauðsynlegur er vegna fjarvinnu.

BHM mun greina frekar frá niðurstöðum könnunarinnar á næstunni í samhengi við þær áskoranir sem háskólamenntaðir standa frammi fyrir nú um stundir.


Fréttir