Vinnuhópur kortleggur stöðu sjálfstætt starfandi félagsmanna

12.2.2020

  • bhm_grand_hotel-30
    Frá málþingi BHM um stöðu sjálfstætt starfandi háskólafólks sem haldið var 30. janúar sl. á Grand hótel Reykjavík.

Formannaráð BHM ákvað á fundi sínum í byrjun síðasta árs að setja á stofn sérstakan vinnuhóp til að fjalla um málefni sjálfstætt starfandi félagsmanna innan aðildarfélaga bandalagsins. Í kjölfarið var málinu vísað til stjórnar BHM sem óskaði eftir tilnefningum frá félögunum í fimm manna vinnuhóp sem m.a. hefði það hlutverk að kortleggja stöðu sjálfstætt starfandi/verkefnaráðinna félagsmanna, taka saman gátlista fyrir þessa félagsmenn vegna samninga þeirra við verkkaupa, greina stöðu þessa hóps í sjóðum BHM o.fl. 

Vinnuhópurinn tók til starfa sl. vor en í honum eiga sæti Unnur Pétursdóttir, frá Félagi sjúkraþjálfara; Gerður Gestsdóttir, frá Félagi íslenskra félagsvísindamanna; Pétur Halldórsson, frá Félagi íslenskra náttúrufræðinga; og Þórey Mjallhvít Ómarsdóttir, frá Fræðagarði. Verkefnastjóri vinnuhópsins er Karen Ósk Pétursdóttir, sérfræðingur BHM í kjara- og réttindamálum. Um mitt síðasta ár var hlé gert á störfum hópsins meðan verkefnastjóri var í fæðingarorlofi en nú hefur hópurinn tekið upp þráðinn að nýju. 

Meðal verkefna sem hópurinn vinnur að er sérstök undirsíða á vef BHM með upplýsingum fyrir sjálfstætt starfandi félagsmenn ásamt umbótum á reiknivél sem nota má til að reikna út verð á útseldri vinnu. Þá hyggst vinnuhópurinn greina og meta hvernig bandalagið og aðildarfélögin geti bætt þjónustu sína við sjálfstætt starfandi félagsmenn.

Þess má að lokum geta að BHM stóð nýlega fyrir fjölsóttu málþingi um stöðu og möguleika sjálfstætt starfandi háskólafólks. Sjá nánar hér.


Fréttir