Grunnlaun kvenna innan BHM hækkuðu meira en karlanna

30.4.2021

  • launahaekkanir_eftir_kynjum
    Smellið á myndina til að stækka hana.

Í vorskýrslu Kjaratölfræðinefndar er fjallað um stöðu efnahagsmála, kjarasamninga sem undirritaðir hafa verið að undanförnu og launaþróun á á tímabilinu mars 2019 til janúar 2021.

Í skýrslunni eru í fyrsta sinn birtar niðurstöður um launastig og launaþróun eftir kynjum og samningssviðum. Fram kemur að mánaðarlaun karla eru í flestum tilvikum hærri en kvenna, nema innan Kennarasambandsins þar sem laun kvenna eru að meðaltali hærri. Grunnlaun kvenna innan BHM hafa hækkað meira en karla innan bandalagsins að jafnaði, hvort sem litið er til almenna vinnumarkaðarins, ríkisins, Sambands íslenskra sveitarfélaga eða Reykjavíkurborgar (sjá mynd hér til hægri). 

Einnig eru í fyrsta sinn birtar upplýsingar um launaþróun eftir uppruna og samningssviðum. Sýndar eru niðurstöður fyrir hópa þar sem fjöldi athugana er nægjanlegur til að uppfylla tölfræðilegar kröfur og það gera þrír hópar innan ASÍ, BHM, BSRB og KÍ.

Gefur út tvær skýrslur á ári

Kjaratölfræðinefnd var komið á fót árið 2019 og er ætlað að vera vettvangur samráðs milli aðila vinnumarkaðar. Nefndinni ber að stuðla að því að aðilar hafi sameiginlegan skilning á eðli, eiginleikum og þróun þeirra hagtalna sem mestu varða við samningagerðina. Gert er ráð fyrir að nefndin gefi út tvær skýrslur á ári. Auk BHM eiga forsætisráðuneyti, félagsmálaráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti, Alþýðusamband Íslands, BSRB, Kennarasamband Íslands, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök atvinnulífsins og Hagstofa Íslands aðild að nefndinni. Félags- og barnamálaráðherra skipar nefndina til fjögurra ára í senn eftir tilnefningum þeirra sem eiga aðild að nefndinni, einn fulltrúa frá hverjum aðila. Ráðherra skipar jafnframt formann nefndarinnar án tilnefningar. Nefndin er hýst hjá Ríkissáttasemjara sem leggur til fundar- og starfsaðstöðu.

Fulltrúi BHM í nefndinni er Vilhjálmur Hilmarsson, hagfræðingur bandalagsins.

Vefur Kjaratölfræðinefndar


Fréttir