Yfirlýsing þriggja ráðherra í tengslum við kjarasamninga aðildarfélaga BHM við ríkið

14.2.2018

  • Yfirlysing-rh-til-BHM---12feb2018
    Yfirlysing-rh-til-BHM---12feb2018
    Smellið á myndina til að stækka hana.

Forsætisráðherra, heilbrigðisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra hafa undirritað sérstaka yfirlýsingu í tengslum við kjarasamninga sautján aðildarfélaga BHM við ríkið. Þar kemur m.a. fram að ráðist verði í sérstakt átak við gerð mannaflaspár fyrir heilbrigðiskerfið til næstu 5–10 ára og stefnt að því að ljúka þeirri vinnu sem fyrst. Mótuð verði stefna og aðgerðaáætlun í heilbrigðismálum í samvinnu við fagstéttir í þeim tilgangi að stuðla að góðu heilbrigði þjóðarinnar og skapa eftirsóknarverðan starfsvettvang fyrir heilbrigðisstarfsfólk. Þá segir í yfirlýsingunni að ráðist verði í umbætur á starfsumhverfi og kjörum heilbrigðisstarfsmanna ríkisins í samráði við aðildarfélög BHM. Markmiðið sé að þessir starfsmenn búi við samkeppnishæf kjör. Störf háskólamenntaðra starfsmanna verði skoðuð sérstaklega með tilliti til samspils kjara og þeirrar menntunar sem starfið krefst.

Þess ber að geta að af sautján aðildarfélögum BHM sem voru með lausa kjarasamninga við ríkið frá 1. september sl. hafa tólf nú undirritað nýja samninga og verða þeir bornir undir atkvæði félagsmanna á næstunni. Tvö félög eru enn í beinum viðræðum við samninganefnd ríkisins en þrjú félög hafa vísað kjaradeilu sinni við ríkið til ríkissáttasemjara. Enn er því ósamið við fimm félög af sautján.

Hér má lesa yfirlýsingu ráðherranna í heild sinni.   
Fréttir