Ljósmynd frá Stjórnarráðinu
Aðgerðahópur um brúun bilsins á milli fæðingarorlofs og leikskóla hefur skilað skýrslu sinni og tillögu að tímasettri áætlun um brúun umönnunarbilsins. Skýrslan og tillögur hópsins voru til umræðu á fundi ríkisstjórnarinnar í gær, 9. desember.
Aðgerðahópurinn leggur til áætlun um að brúa umönnunarbilið með því að tryggja börnum leikskólapláss eftir að fæðingarorlofi lýkur. Tillögur hópsins miða að þessu og fela í sér að réttur barna til leikskólavistar verði lögfestur í áföngum líkt og gert hefur verið á öðrum Norðurlöndum, leikskólastigið verði styrkt með markvissum aðgerðum og að mótuð verði heildstæð stefna um stuðning og þjónustu við fjölskyldur ungra barna.
Mönnun leikskóla er lykilþáttur í því að brúa umönnunarbilið. Í skýrslunni kemur fram að átak um fjölgun kennara á síðustu árum hafi skilað árangri og tryggja þurfi að sú þróun haldi áfram. Einnig þurfi að horfa til þess að nám leikskólakennara á Íslandi er lengra en á öðrum Norðurlöndum og að leikskólakennarar eru eina fagstéttin sem er skilgreind í lögum um leikskóla. Mikilvægt sé að efla aðrar uppeldismenntaðar starfstéttir sem starfa með leikskólakennurum, efla námstækifæri þeirra og fjölga þeim í starfsliði leikskólanna.
Greining var unnin á þjóðhagslegum áhrifum mismunandi sviðsmynda sem miða að því að brúa umönnunarbilið. Samfélagslegur ábati af því að tryggja börnum rétt til leikskólavistar við 12 mánaða aldur er metinn samtals um 11 milljarðar króna á ársgrundvelli en samfélagslegur ábati þess að lengja fæðingarorlof í 18 mánuði er metinn neikvæður um 6,1 milljarða króna.
Nú er umönnunarbilið í reynd utan ábyrgðarsviðs bæði ríkis og sveitarfélaga þar sem enginn skilgreindur réttur er til leikskóladvalar frá því að fæðingarorlofi lýkur þar til grunnskólaganga hefst. Lengd þess er misjöfn eftir sveitarfélögum en í mörgum tilfellum er það sex mánuðir og stundum mun lengra. Árið 2022 fékk rúmlega helmingur barna leikskólapláss eftir 18 mánaða aldur.