Húsnæði umboðsmanns Alþingis.
BHM hefur sent formlega kvörtun til umboðsmanns Alþingis vegna fyrirmæla fjármálaráðherra til stofnana ríkisins um að leiðrétta ekki ákvörðun orlofs á fasta yfirvinnu ríkisstarfsmanna í kjölfar dóms Landsréttar í máli nr. 361/2024, nema að starfsmaður geri sérstaka kröfu um það.
Dómur staðfestir skýran rétt – sem hefur legið fyrir lengi
Þann 19. júní 2025 staðfesti Landsréttur dóm héraðsdóms í máli nr. 361/2024, þar sem fallist var á kröfu starfsmanns um að íslenska ríkinu bæri að greiða orlofsfé af föstum yfirvinnulaunum, nema samið hafi verið um annað.
Í raun var þar staðfest það sem Hæstiréttur hafði þegar skorið úr um í máli nr. 618/2006 og fjármálaráðuneytið hafði upplýst stofnanir um með dreifibréfi nr. 2/2006. Með öðrum orðum, í nærri tvo áratugi hefur legið fyrir að greiða skuli orlof af föstum yfirvinnulaunum.
Ráðuneytið hvetur til aðgerðarleysis
Í stað þess að tryggja leiðréttingu til allra sem brotið hefur verið á, sendi fjármálaráðuneytið í haust erindi til forstöðumanna stofnana þar sem þeim er beinlínis ráðlagt að gera ekkert. Þar er hvorki gert ráð fyrir afturvirkri leiðréttingu né að greiða framvegis laun í samræmi við niðurstöðu dómstóla. Þvert á móti er lögð áhersla á að bíða og treysta því að starfsfólk átti sig ekki á rétti sínum, svo hægt sé síðar að hafna þeim með vísan til tómlætis eða fyrningar.
Jafnræðisregla virt að vettugi
BHM bendir á að þessi afstaða standist hvorki lög né kröfur um góða stjórnsýslu. Ríkið viti að laun hafi verið vangreidd og beri að leiðrétta þau án þess að starfsfólk þurfi að krefjast þess sérstaklega. Þá vakna spurningar um hvort stjórnvöld brjóti gegn leiðbeiningarskyldu sinni með því að upplýsa starfsmenn ekki um rétt sinn.
Samanburður við dóm Hæstaréttar í máli nr. 39/2023 er sláandi. Þar voru ákvarðanir um breytingar á launaviðmiðum, lækkun launa dómara dæmdar ólögmætar og fjármálaráðuneytið leiðrétti laun allra embættismanna og kjörinna fulltrúa óháð því hvort hver og einn hafði gert kröfu eða ekki. Verður því ekki séð að gætt sé jafnræðis.
Kvörtun til umboðsmanns Alþingis
BHM hefur sent kvörtun vegna þessa máls til umboðsmanns Alþingis þar sem hann er hvattur til að veita málinu forgang þar sem fjárhagslegar kröfur starfsmanna séu í hættu á að fyrnast með hverjum mánuði sem líður.

