Makamissir í blóma lífsins er eitt mesta áfall sem hægt er að verða fyrir á lífsleiðinni. Það tekur mjög á að vera í djúpri sorg og sinna á sama tíma börnum og heimili. Því er mikilvægt að geta fengið aðstoð, og finna á einum stað upplýsingar um réttindi sín í kerfinu og leiðir í sorgarvinnu fullorðinna og barna. Síðast en ekki síst finnst flestum mjög hjálplegt að fá að komast í kynni við og hitta fólk í sömu sporum, finna skilning og stuðning hjá þeim sem þekkja af eigin reynslu hvað við er að etja.
Markmið Ljónshjarta er að styðja við bakið á yngra fólki eftir makamissi og vera vettvangur þar sem fólk getur hjálpað hvert öðru í sorg. Starfið felst meðal annars í að halda úti heimasíðu með ýmis konar fræðsluefni og efna til samverustunda þar sem fullorðnir, unglingar og yngri börn hittast og eiga góða stund saman.
„Við erum alltaf svo þakklát þegar fólk hugsar til okkar. Allir styrkir sem okkur berast fara í að greiða fyrir sálfræðikostnað fyrir börn sem hafa misst foreldri til að hjálpa þeim við sorgarúrvinnslu. Um 80 börn nýta sér þessa aðstoð á ári hverju, segir Anna Dagmar gjaldkeri félagsins.“