Starfshópur um endurskoðun á reglum vegna endurgreiðslu námslána

Nú hafa háskóla,- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra undirritað yfirlýsingu um stofnun starfshóps um endurskoðun á reglum vegna endurgreiðslu námslána í námslánakerfi Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) og mun BHM eiga aðild að starfshópnum.

Ákvörðun þessa má rekja til yfirlýsingar stjórnvalda frá 7. mars sl., sem gefin var í tengslum við kjarasamninga á almennum markaði. Í henni var heitið breytingu á lögum um Menntasjóð námsmanna sem lúta að því að létta vaxtabyrði og draga úr skyndilegum og ófyrirséðum hækkunum vegna verðbólgu og vaxta á afborganir námslána.

BHM óskaði strax eftir því að aðgerðir stjórnvalda fælu einnig í sér lagfæringar á greiðslubyrði námslána úr eldra kerfi, þ.e. LÍN. Starfshópurinn, sem nú hefur verið ákveðið að stofna, fær það verkefni að skoða greiðslubyrði eldri lána, með það að markmiði að tryggja jafnræði milli greiðenda námslána í eldra kerfi og því nýja. Ætlunin er að kortleggja áhrif endurgreiðslufyrirkomulags eldri lána LÍN með tilliti til áhrifa á ævitekjur. Markmið breytinga sem gerðar voru við stofnun Menntasjóðs námsmanna var að tryggja að endurgreiðslu námslána lyki fyrir eftirlaunaaldur. Ljóst að er að slíkt gildir ekki í fyrra kerfi og er mikilvægt að skoða samræmi þarna á milli. Hópnum verður sérstaklega falið að skoða áhrif mögulegra afskrifta í tengslum við eftirlaunaaldur og stöðu lántakenda með hæstu lánin.

Kolbrún Halldórsdóttir formaður BHM segir að orðalagið í yfirlýsingunni frá 7. mars hafi verið ákveðið án samráðs við BHM og ljóst að aðgerðirnar hafi ekki verið hugsaðar til enda þegar yfirlýsing stjórnvalda var birt. „Ég vakti strax athygli stjórnvalda á þessu og bað um að það yrði tryggt að inntak aðgerðanna yrði orðað í samráði við BHM þegar kæmi að kjarasamningum aðildarfélaga bandalagsins. Það vilyrði hefur nú verið efnt með yfirlýsingu ráðherranna um stofnun starfshóps um málið.“

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími þjónustuvers:
mán. til fim. 9:00 - 15:00,
fös. 9:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00,
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt