„Við vinnum“...saman

Grein formanns BHM í Morgunblaðinu 26. maí

Í maíbyrjun gerði BHM könnun meðal þjóðarinnar þar sem spurt var um ímynd samtaka á vettvangi vinnumarkaðar og viðhorf almennings til næstu kjarasamninga. Áhugavert er að samkvæmt könnuninni virðist stöðugt efnahagsumhverfi og kaupmáttaraukning mun ofar í huga launafólks en launahækkanir. Þá má margt betur fara þegar kemur að ímynd verkalýðshreyfingarinnar og atvinnulífsins. Hvaða lærdóm ber okkur öllum að draga af þessu ef stöðugleiki er markmiðið?

Lærdómur verkalýðshreyfingar: Mikilvægi samvinnu

Á baráttudegi verkalýðsins 1. maí tók ég þátt í minni fyrstu kröfugöngu. Yfirskriftin var „við vinnum“ og „við sköpum verðmætin“. Ég hef satt best að segja verið eilítið hugsi yfir þessum skilaboðum. Þó þau séu bæði sönn og eigi fullan rétt á sér eru þau einhliða. Staðreyndin er að hagkerfið samanstendur af tveimur máttarstólpum. Annars vegar launafólki sem selur vinnu sína gegn gjaldi til fyrirtækja og hins opinbera - og hins vegar atvinnurekendum, fyrirtækjaeigendum og frumkvöðlum sem binda fjármagn í rekstri gegn áhættu. Þrátt fyrir þessa staðreynd hafa sumir kollegar mínir oft nálgast umræðuna af reiði og heift gagnvart atvinnulífinu. Markmiðið virðist þá frekar vera að telja launafólki trú um að hagsmunir þeirra séu með öllu ósamræmanlegir hagsmunum launagreiðenda. Þvert á móti eru þessir hagsmunir mjög oft sameiginlegir. Staðreyndin er að fyrirtækjaeigendur, rétt eins og launafólk, eru að langmestu leyti harðduglegt og heiðarlegt fólk. Eðli málsins samkvæmt komum við að samningaborðinu með ólíka hagsmuni í farteskinu. Það er þýðir samt ekki að við getum ekki sýnt gagnkvæma virðingu.

Lærdómur atvinnulífsins: Tölum af gætni og virðingu

Í leiðara Morgunblaðsins í byrjun vikunnar var fjallað um fyrrnefnda könnun BHM. Af þeim skrifum mætti þó skilja sem svo að andrúmsloftið á vinnumarkaði sé alfarið á ábyrgð verkalýðshreyfingarinnar. Höfundi láðist að segja frá viðhorfi almennings til atvinnulífsins en aðeins 31 prósent aðspurðra sögðust jákvæð gagnvart Samtökum atvinnulífsins. Um helmingi fleiri, 41- 46 prósent aðspurðra, sögðust jákvæð gagnvart verkalýðshreyfingunni. Þetta hlýtur að gefa forsvarsmönnum atvinnulífsins ástæðu til að staldra við og íhuga hvernig haga skuli leikjafræðinni á næstu misserum. Forsvarsmenn atvinnulífsins þurfa umbjóðenda sinna vegna að tala af meiri virðingu um launafólk og af meira innsæi um samhengi verðmætasköpunar. Svigrúm til launahækkana er mjög mismunandi eftir atvinnugreinum og grundvallast ekki eingöngu á framleiðnibreytingum heldur hlutdeild launa í verðmætasköpun atvinnugreinar hverju sinni; samkeppnishæfni, samkeppnisaðstæðum á mörkuðum og viðskiptakjörum. Um þetta er fjallað í greinargerð með fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar: „Svigrúm hagkerfisins til launahækkana á hvern vinnandi einstakling ræðst í raun annars vegar af þróun framleiðni og hins vegar af þróun viðskiptakjara, þ.e. þróun verðlags þess sem við flytjum út í samanburði við það sem við flytjum inn. Hækki laun umfram samtölu framleiðnivaxtar og viðskiptakjarabata getur aukningin falist í breyttu hlutfalli þess sem fer í laun annars vegar og arðsemi fyrirtækja hins vegar. Umfram það brýst aukinn launakostnaður fram í verðbólgu eða atvinnuleysi, nema hvort tveggja sé.” Slík umfjöllun er til fyrirmyndar.

Lærdómur allra: Samstaða og stöðugleiki

„Ísland kemst í heimsmetahóp!“ var skrifað á forsíðu blaðanna á vordögum 1983 þegar verðbólgan rauf 100% múrinn á ársgrundvelli. Mín kynslóð, sem þá tók út unglinginn, fékk þennan óstöðugleika beint í æð en foreldrum okkar þótti þessi tíðindi líklega ekkert merkileg. Kaupmáttur lágmarksdagvinnutaxta var til dæmis lægri á lýðveldishátíðinni 1994 en á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar. Sveiflurnar höfðu verið gríðarlegar fram að því.

Sá áratugur sem nú er að baki, áratugurinn 2010-2019, einkenndist af meiri stöðugleika með tilliti til verðlags og hagsveiflna en Íslendingar hafa áður kynnst. Börnin mín þekkja til að mynda fátt annað en mikinn kaupmátt og verðstöðugleika. Við sem upplifðum óstöðugleika fyrri áratuga vitum hversu eftirsóknarverður stöðugleikinn er. En þó markmiðið sé stöðugt efnahagsumhverfi fyrir þjóðina í heild sinni er hann ekki efstur á blaði hjá okkur öllum. Sum okkar eiga nefnilega mun meira inni en önnur. Stór samfélagsleg verkefni eru fram undan, meðal annars leiðrétting á skökku mati kvennastarfa og aukinn hreyfanleiki á vinnumarkaði. Við þurfum að taka þeim verkefnum félagslegs réttlætis fagnandi og af ábyrgð. Samtímis leggjum við áherslu á áframhaldandi efnahagslegan stöðugleika, fyrir launafólk og fyrirtækin í landinu.

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími þjónustuvers:
mán. til fim. 9:00 - 15:00,
fös. 9:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00,
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt