Chat with us, powered by LiveChat

Spurt og svarað

1. Hvenær er sótt um sjúkradagpeninga?

a. Hvenær get ég sótt um sjúkradagpeninga?

Sjóðfélagi getur sótt um sjúkradagpeninga þegar viðkomandi hefur fullnýtt rétt til launa í veikindum eða er ekki lengur í ráðningarsambandi. Sjóðfélagi fær þá vottorð frá vinnuveitanda þess efnis að hann hafi fullnýtt rétt sinn (eða komi til með að fullnýta rétt sinn) til launa í veikindum hjá vinnuveitanda og frá hvaða degi viðkomandi fellur af launaskrá eða hvaða dagur er síðasti dagur á launum.

b. Hvernig veit ég hversu mikinn rétt ég á til launa í veikindum hjá launagreiðanda/vinnuveitanda?

Þú færð upplýsingar um áunninn rétt þinn til launa í veikindum hjá þínum launagreiðanda/vinnuveitanda s.s. í tímaskráningakerfi vinnuveitanda. Einnig getur þitt stéttarfélag aðstoðað þig ef eitthvað er óljóst varðandi rétt þinn til launa í veikindum.

c. Getur verið að ég eigi áunninn rétt til launa í veikindum annars staðar?

Já það er hugsanlegt. Ávinnsluréttur til launa í veikindum á opinberum vinnumarkaði (ríki, borg og sveitarfélögum) safnast upp miðað við heildar starfsaldur. Það getur því vel verið að sjóðfélagi eigi áunninn rétt til launa í veikindum annars staðar en hjá núverandi vinnuveitanda. 

Tökum sem dæmi Eddu sem hefur starfað hjá Reykjavíkurborg í 1,5 ár og ætti að öðru óbreyttu 133 daga rétt í launuðum veikindum þaðan. Áður en hún hóf störf hjá Reykjavíkurborg þá starfaði hún hjá ríkisskattsjóra í fimm ár og átti þar 133 daga rétt í launuðum veikindum. Þegar Edda var 18-20 ára starfaði hún í sumarstarfi á frístundaheimili í Kópavogi og átti þar 14 daga rétt í launuðum veikindum. Telja ber heildar þjónustualdur hjá framangreindum vinnuveitendum sem í tilfelli Eddu er 7 ár og 3 mánuðir. Þar með er uppsafnaður réttur Eddu í launuðum veikindum á opinberum vinnumarkaði 175 dagar eða 6 mánuðir í heildina.

d. Hvar finn ég upplýsingar um áunninn rétt í launuðum veikindum?

Sjóðfélagi þarf sjálfur að hafa samband við Fjársýslu ríkisins, Reykjavíkurborg og/eða sveitarfélög til að kanna hvort viðkomandi eigi þar áunninn rétt í launuðum veikindum sem honum ber að nýta sér áður en hann hefur töku sjúkradagpeninga frá Styrktarsjóði BHM. Viðkomandi fær upplýsingar um þjónustualdur sinn þaðan sem hann er að finna og skilar til núverandi vinnuveitanda.

2. Útreikningar sjúkradagpeninga

a. Hvernig eru sjúkradagpeningar reiknaðir út?

Sjúkradagpeningar eru reiknaðir út með því að finna meðaltal launa, til að mynda meðaltal launa síðustu 6 mánuði fyrir veikindi eða frá því að launagreiðslur falla niður, og reikna út 80% af þeirri upphæð. Meðallaun eru fundin út með því að skoða iðgjaldagreiðslur í sjóðinn, og eru þær iðgjaldagreiðslur bornar saman við launaseðil/launaseðla og/eða staðgreiðsluskrá frá ríkisskattstjóra. 

Ávinnsluréttur sjúkradagpeningsmánaða er miðaður við fjölda inngreiðslna s.l. 6 mánuði. 

Þá er einnig skoðað hlutfall veikinda samkvæmt sjúkradagpeningavottorði þegar kemur að útreikningum sjúkradagpeninga.

b. Hver er hámarksgreiðsla sjúkradagpeninga?

Greiðslur sjúkradagpeninga eru aldrei hærri en 713.000 kr. á mánuði.

c. Ef ég var atvinnulaus áður en ég fer á sjúkradagpeninga, hvernig eru sjúkradagpeningar úr Styrktarasjóði BHM reiknaðir?

Athugið að merkja þarf sérstaklega við það í umsókn um atvinnuleysisbætur að greiða til stéttarfélags. Ef ekki er greitt stéttarfélagsgjald af atvinnuleysisbótum þá á viðkomandi ekki rétt á greiðslum úr Styrktarsjóði BHM. 

Sjúkradagpeningar eru reiknaðir út frá greiðslum frá Atvinnuleysistryggingasjóði allt að 6 mánuði aftur í tímann. Atvinnuleysistryggingasjóður dregur af stéttarfélagsgjald fyrir viðkomandi sjóðfélaga og skilar til stéttarfélagsins. Upphæð sjúkradagpeninga er reiknuð út frá greiðsluseðlum frá Atvinnuleysistryggingasjóði.

d. Ef ég var í fæðingarorlofi áður en ég fer sjúkradagpeninga, hvernig verða þá útreikningar sjúkradagpeninga úr Styrktarsjóði BHM?

Athugið að merkja þarf sérstaklega við það í umsókn um fæðingarorlofsgreiðslur að greiða til stéttarfélags. Ef ekki er greitt stéttarfélagsgjald af fæðingarorlofsgreiðslum þá á viðkomandi ekki rétt á greiðslum úr Styrktarsjóði BHM. 

Sjúkradagpeningar eru reiknaðir út frá meðallaunum allt að 6 mánuði aftur í tímann áður en að greiðslur fæðingarorlofs hófust.

3. Hvenær er umsókn tekin til umfjöllunar og afgreiðslu?

a. Hvenær eru umsóknir vegna sjúkradagpeninga teknar til umfjöllunar?

Allar umsóknir vegna sjúkradagpeninga, sem innihalda öll tilskilin gögn, eru lagðar fyrir fund hjá stjórn Styrktarsjóðs BHM. Stjórnin kemur saman, öllu jöfnu, einu sinni í mánuði (yfirleitt í kringum tuttugasta hvers mánaðar).

b. Hvenær eru umsóknir vegna sjúkradagpeninga afgreiddar?

Umsóknir vegna sjúkradagpeninga eru afgreiddar eigi síðar en í lok mánaðar.

c. Þarf ég að leggja inn nýja umsókn í hverjum mánuði?

Nei. Ekki þarf að leggja inn nýja umsókn í hverjum mánuði. Þegar umsókn hefur verið samþykkt á fundi stjórnar þá telst hún sem „virk“ umsókn. 

Hugsanlega þarf sjóðfélagi að skila inn uppfærðu sjúkradagpeningavottorði og er það gert með því að skila inn nýju vottorði á fyrirliggjandi umsókn. Sjóðfélagi fær sendan tölvupóst frá Styrktarsjóði BHM í uphafi mánaðar ef viðkomandi þarf að skila inn uppfærðu sjúkradagpeningavottorði þann mánuðinn.

d. Þarf ég að skila inn sjúkradagpeningavottorði í hverjum mánuði?

Öllu jöfnu er farið fram á uppfært sjúkradagpeningavottorð á tveggja mánaða fresti. 

Ef sjúkradagpeningavottorð er hins vegar einungis gefið út í mánuð í senn þá þarf að skila inn uppfærðu sjúkradagpeningavottorði hvern mánuð. Sjóðfélagar fá sendan tölvupóst í byrjun þess mánaðar sem viðkomandi þarf að skila inn uppfærðu sjúkradagpeningavottorði.

4. Sjúkradagpeningar að hluta

a. Get ég verið á sjúkradagpeningum að hluta?

Sjóðfélagar geta verið á sjúkradagpeningum samhliða skertu starfshlutfalli vegna veikinda. Sjúkradagpeningar eru þá reiknaðir út frá þeirri vinnufærni sem um er getið í sjúkradagpeningavottorði viðkomandi sjóðfélaga. Sjá nánar liði 4 og 11 í Spurt og svarað

b. Á ég rétt á lengra sjúkradagpeningatímabili ef ég fæ sjúkradagpeninga greidda að hluta?

Bótatímabil lengist ekki þó svo að sjóðfélagi fái til dæmis einungis 30% sjúkradagpeninga

c. Get ég fengið greiðslur sjúkradagpeninga samhliða greiðslum frá Fæðingarorlofssjóði?

Verðandi mæður sem þurfa að leggja niður störf á meðgöngu vegna meðgöngutengdra kvilla og þiggja greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði eiga rétt á greiðslu sjúkradagpeninga til að vega upp á móti tekjuskerðingu fram að fæðingardegi barnsins. Upphæð sjúkradagpeninga miðast við greiðsluáætlun frá Fæðingarorlofssjóði. 

Sjá nánar liði 9 og 11 í Spurt og svarað.

5. Hvaða gögnum þarf að skila inn með umsókn?

a. Hvar skila ég inn umsókn?

Öllum umsóknum í sjóði BHM (þ.m.t. umsóknum vegna sjúkradagpeninga) er skilað inn rafrænt í gegnum Mínar síður BHM.

b. Hvaða gögnum þarf ég að skila inn með umsókn?

Eftirtöldum gögnum þarf að skila inn með rafrænni umsókn: 

 1. Umsóknareyðublað (útfyllt og undirritað) 
  Hér má nálgast umsóknareyðublað
 2. Launaseðill (e. staðgreiðsluskrá frá Ríkisskattstjóra) 
 3. Vottorð vinnuveitanda sem staðfestir að viðkomandi sé búinn að fullnýta rétt sinn til launa í veikindum sinn hjá vinnuveitanda (og áunnum rétti til launa í veikindum ef við á), þar þurfa m.a. að koma fram upplýsingar frá hvaða degi réttur til launa í veikindum telst fullnýttur. Ef viðkomandi er ekki lengur við störf á sínum vinnustað þá þarf viðkomandi að skila inn afriti af uppsagnarbréfi eða starfslokasamningi 
  Hér má nálgast eyðublað atvinnurekanda vegna fullnýtingar veikindaréttar
 4. Sjúkradagpeningavottorð (sem sjóðfélagi fær frá sínum lækni)

6. Rafrænn persónuafsláttur (skattkort)

a. Get ég nýtt persónuafsláttinn minn hjá Styrktarsjóði BHM á meðan ég er á sjúkradagpeningum?

Já. Sjóðfélaga er heimilt að nýta, eða nýta ekki, persónuafsláttinn sinn hjá Styrktarsjóði BHM á meðan hann þiggur sjúkradagpeninga.

b. Hvert skila ég inn skattkortinu mínu?

Sjóðfélagi þarf ekki að skila inn skattkorti til Styrktarsjóðs BHM enda er meðhöndlun skattkorts/persónuafsláttar alfarið á rafrænu formi í dag. Sjóðfélagi greinir frá því á umsóknareyðublaðinu hvernig hann/hún vill nýta sinn persónuafslátt hjá Styrktarjóði BHM og frá hvaða tímabili.

c. Get ég nýtt skattkort maka þegar ég er á sjúkradagpeningum?

Sjóðfélagi getur einnig nýtt sér persónuafslátt maka sé þess óskað.

7. Hámarkslengd sjúkradagpeninga

a. Hversu lengi get ég verið á sjúkradagpeningum í hvert sinn?

Frá og með 1. maí 2022 verða sjúkradagpeningar frá Styrktarsjóði BHM greiddir að hámarki í sex mánuði í stað átta mánaða. Sjóðfélagar sem sóttu um sjúkradagpeninga til og með 30. apríl 2022 eiga rétt í samræmi við reglur eins og þær voru fyrir þann tíma. Breytingin tekur því mið af umsóknardegi.

Sjúkradagpeningar eru greiddir í allt að 6 mánuði vegna eigin veikinda. Hafi verið greitt í sjóðinn í færri en 6 mánuði, miðast réttur til sjúkradagpeninga við fjölda þeirra mánaða sem greiddir hafa verið. Þannig hefur sjóðfélagi sem greitt hefur til sjóðsins í 4 mánuði áunnið sér rétt til sjúkradagpeninga í 4 mánuði.

 1. Vegna veikinda barns eru sjúkradagpeningar greiddir í allt að 6 mánuði. Ekki er greitt fyrir styttri veikindatíma en samfelldar 2 vikur.
 2. Vegna langtímaveikinda maka eða sambúðarmaka eru sjúkradagpeningar greiddir í allt að 2 mánuði. Þó er ekki greitt fyrir fyrstu 10 dagana í veikindum.
 3. Vegna mjög alvarlegra veikinda annarra nákominna er stjórn heimilt að greiða sjúkradagpeninga í allt að 2 vinnuvikur ef sjóðfélaga er ekki heimiluð launuð fjarvera. Þó er ekki greitt fyrir fyrstu 10 dagana í veikindum.
 4. Vegna andláts nákominna (maka, sambúðarmaka eða barns) greiðir sjóðurinn sjúkradagpeninga í allt að 2 vinnuvikur ef sjóðfélaga er ekki heimiluð fjarvera án skerðingar á launum. Sama gildir um fráfall annarra nákominna.
 5. Styrktarsjóði BHM er einnig heimilt að greiða sjúkradagpeninga til sjóðfélaga vegna læknisrannsókna sem eru undanfari frekari aðgerða, líffæragjafar eða aðgerða sem taldar eru nauðsynlegar að mati læknis. Einnig vegna glasa- og tæknifrjóvgunar og áfengis- og fíkniefnameðferðar í allt að 6 vinnuvikur.

8. Afturvirkar greiðslur

a. Get ég sótt um greiðslur sjúkradagpeninga afturvirkt?

Já. Sjúkradagpeningar eru að hámarki greiddir í þrjá almanaksmánuði afturvirkt miðað við umsóknarmánuð.

9. Veikindi á meðgöngu

a. Get ég fengið sjúkradagpeninga ef ég veikist á meðgöngu?

Já. Sjóðfélagi getur fengið greidda sjúkradagpeninga frá Styrktarsjóði BHM ef viðkomandi veikist á meðgöngu. Sjóðfélagi þarf samt sem áður að sýna fram á að viðkomandi hafi fullnýtt rétt sinn til launa í veikindum frá vinnuveitanda (skilar inn vottorði þess efnis með rafrænni umsókn). Þá ber viðkomandi sjóðfélaga einnig að kanna rétt sinn á framlengingu á fæðingarorlofi frá Fæðingarorlofssjóði áður en sótt er um sjúkradagpeninga frá Styrktarsjóði BHM.

b. Hvað er framlenging á fæðingarorlofi?

Á heimasíðu Vinnumálastofnunar/Fæðingarorlofssjóðs er greint frá eftirfarandi: 

Sé þungaðri konu nauðsynlegt af heilsufarsástæðum sem tengjast meðgöngunni að leggja niður launuð störf eða hætta þátttöku á vinnumarkaði samkvæmt rétti til atvinnuleysisbóta meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag getur hún átt rétt á lengra fæðingarorlofi þann tíma en þó aldrei lengur en 2 mánuði. 

Hér er átt við að ef þunguð kona þarf að leggja alfarið niður launuð störf eða hætta þátttöku á vinnumarkaði meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag getur hún átt rétt á lengra fæðingarorlofi þann tíma en þó aldrei lengur en 2 mánuði. Sjóðfélagi sem þarf að leggja alfarið niður störf vegna veikinda á meðgöngu ber að kanna rétt sinn á framlengingu á fæðingarorlofi frá Fæðingarorlofssjóði. 

Sjá nánari upplýsingar á heimasíðu Vinnumálastofnunar/Fæðingarorlofssjóðs. 

c. Hvað ef ég þarf að leggja niður störf minna en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag og hef fullnýtt rétt minn til launa í veikindum hjá vinnuveitanda?

Þá þarf viðkomandi sjóðfélagi ekki að kanna rétt sinn á framlengingu á fæðingarorlofi þar sem krafan frá Fæðingarorlofssjóði er sú að viðkomandi þarf að leggja alfarið niður störf mánuði eða meira fyrir áætlaðan fæðingardag. Sjóðfélaga er því óhætt að leggja inn umsókn vegna sjúkradagpeninga til Styrktarsjóðs BHM.

d. Hvað ef ég þarf að leggja niður störf t.d. fimm mánuðum fyrir áætlaðan fæðingardag?

Sjóðfélaga ber þá að fullnýta rétt sinn til launaðra veikinda hjá sínum vinnuveitanda áður en sótt er um sjúkradagpeninga frá Styrktarsjóði BHM. Sjóðfélaga ber einnig að kanna rétt sinn á framlengingu fæðingarorlofs frá Fæðingarorlofssjóði. Sjóðfélagi gæti þá átt rétt á framlengingu á fæðingarorlofi frá Fæðingarorlofssjóði í allt að 2 mánuði. 

Tökum sem dæmi hana Sigrúnu sem á von á barni. Áætlaður fæðingardagur barns er 15.12.2020 en Sigrún þarf að leggja niður störf, vegna meðgöngutengdra kvilla, frá og með 03.07.2020. Réttur Sigrúnar til launa í veikindum hjá vinnuveitanda kláraðist þann 03.08.2020. Sigrún byrjar á að kanna rétt sinn á framlengingu á fæðingarorlofi frá Fæðingarorlofssjóði og fær þær upplýsingar að hún eigi rétt á framlengingu frá 15.10.2020 fram að fæðingardegi barns eða áætluðum fæðingardegi barns. Til að brúa bilið frá 04.08.2020 – 14.10.2020 fær Sigrún greidda sjúkradagpeninga frá Styrktarsjóði BHM. Þá er Styrktarsjóði BHM einnig heimilt að greiða sjúkradagpeninga til að vega upp á móti tekjuskerðingu þegar framlenging á fæðingarorlofi tekur gildi. Hér er átt við að heimilt er að greiða Sigrúnu sjúkradagpeninga frá Styrktarsjóði BHM samhliða greiðslum framlengingar fæðingarorlofs á tímabilinu 15.10.2020 – 04.12.2020. Þegar svo ber undir þá taka greiðslur sjúkradagpeninga frá Styrktarsjóði BHM mið af greiðsluáætlun frá Fæðngarorlofssjóði. 

Sjá nánar lið 4 í Spurt & svarað.

e. Hvað ef ég þarf bara að minnka við mig starfshlutfall?

Þá þarf viðkomandi sjóðfélagi ekki að kanna rétt sinn á framlengingu á fæðingarorlofi frá Fæðingarorlofssjóði, enda er krafan sú að þunguð kona þarf að leggja alfarið niður störf til að eiga rétt á framlengingu á fæðingarorlofi. Viðkomandi sjóðfélagi þarf hins vegar að fullnýta rétt sinn til launa í veikindum hjá vinnuveitanda áður en greiðslur sjúkradagpeninga frá Styrktarsjóði BHM hefjast.

10. Greiðslur til frádráttar

a. Ef ég er með tekjur eða fæ greiðslur annars staðar frá, hefur það áhrif á sjúkradagpeningagreiðslur til mín?

Allar skattskyldar greiðslur frá öðrum aðilum umfram 20% af grunni inngreiðslna síðustu 6 mánuði, koma að fullu til frádráttar sjúkradagpeninga frá sjóðnum. 

Hins vegar er sjóðfélaga heimilt að fá bæði greiðslur sjúkradagpeninga frá Styrktarsjóði BHM sem og greiðslur sjúkradagpeninga frá Sjúkratryggingum Íslands án þess að það komi til skerðingar. Hafa ber þó í huga að samanlagðar greiðslur frá Styrktarsjóði BHM og Sjúkratryggingum Íslands mega ekki vera hærri en meðaltal mánaðarlauna sjóðfélaga síðustu 6 mánuði fyrir töku sjúkradagpeninga. Í þeim tilvikum sem samanlagðar greiðslur eru hærri en meðallaun síðustu 6 mánuði fyrir töku sjúkradagpeninga þá skerðast sjúkradagpeningar frá Styrktarsjóði BHM sem því um nemur. 

Sjóðurinn greiðir ekki sjúkradagpeninga í þeim tilvikum þar sem sjóðfélagi nýtur greiðslna vegna tekjutaps fyrir sama slys/veikindatímabil frá öðrum, t.d. greiðslur úr slysatryggingu launafólks og greiðslur vegna slysa af völdum vélknúinna ökutækja. Komi til þess að slíkar greiðslur séu lægri en fjárhæð reiknaðra sjúkradagpeninga frá Styrktarsjóði BHM er sjóðnum heimilt að greiða mismuninn. Greiðslur miskabóta frá tryggingafélagi viðkomandi sjóðfélaga ekki áhrif á greiðslur sjúkradagpeninga.

b. Hafa orlofsgreiðslur áhrif á greiðslur sjúkradagpeninga til mín?

Orlofsgreiðslur, þ.m.t. vegna uppsagnar eða starfsloka, hafa ekki áhrif á greiðslur sjúkradagpeninga frá Styrktarsjóði BHM.

c. Hafa greiðslur úr lífeyrissjóði eða frá Tryggingastofnun áhrif á greiðslur sjúkradagpeninga til mín?

Það getur koið til þess að greiðslur frá lífeyrissjóði eða Tryggingastofnun leiði til skerðinga sjúkradagpeninga frá Styrktarsjóði BHM. 

Stjórn Styrktarsjóðs BHM metur hvert tilfelli fyrir sig með tilliti til fyrirliggjandi gagna sem fylgja umsókn.

d. Get ég tekið út sumarfrí samhliða greiðslum sjúkradagpeninga frá Styrktarsjóði BHM?

Nei það er ekki hægt. Sjóðfélagi getur ekki þegið sjúkradagpeninga frá Styrktarsjóði BHM ásamt því að vera í launuðu sumarfríi. 

Ef hins vegar er um að ræða orlofsuppgjör sem á sér stað á sama tíma og sjóðfélagi er að þiggja sjúkradagpeninga þá kemur slíkt uppgjör ekki til skerðinga sjúkradagpeninga.

11. Bótatímabil

a. Hvað er átt við með bótatímabili?

Bótatímabil er það tímabil sem veikindi standa yfir og sjóðfélagi þiggur greiðslur sjúkradagpeninga frá Styrktarsjóði BHM. 

Það telst til nýtingar sjúkradagpeningatímabils ef sjóðfélagi er í eigin veikindum (þ.m.t. veikindi á meðgöngu og í fæðingarorlofi). Það telst einnig til nýtingar sjúkradagpeningatímabils ef sjóðfélagi þiggur sjúkradagpeninga vegna veikinda barns, maka, annarra nákominna, andláts eða af öðrum ástæðum.

b. Hvenær á ég aftur rétt á sjúkradagpeningum eftir að ég hef nýtt (að fullu eða að hluta) rétt minn á sjúkradagpeningum frá Styrktarsjóði BHM?

Sjóðfélagi öðlast rétt til sjúkradagpeninga að nýju eftir 12 mánaða iðgjaldagreiðslu eftir að fyrra bótatímabili lýkur og öðlast þá hálfan rétt (3 mánuði) en fullan rétt (6 mánuði) eftir 24 mánuði.

c. Er ég að nýta bótatímabil ef ég er að fá sjúkradagpeninga t.d. vegna veikinda maka?

Já. Það telst til nýtingar bótatímabils ef sjóðfélagi er í eigin veikindum (þ.m.t. veikindi á meðgöngu og í fæðingarorlofi). Það telst einnig til nýtingar bótatímabils ef sjóðfélagi er þiggur sjúkradagpeninga vegna veikinda barns, veikinda maka, veikinda annarra nákominna, andláts eða læknisrannsókna.

12. Sjúkradagpeningavottorð

a. Þarf ég að skila inn sjúkradagpeningavottorði með umsókn vegna sjúkradagpeninga?

Já það er bundið í úthlutunarreglur Styrktarsjóðs BHM að skila þarf inn sjúkradagpeningavottorði með umsóknum varðandi sjúkradagpeninga.

b. Hvar fæ ég sjúkradagpeningavottorð?

Sjúkradagpeningavottorð er gefið út af lækni sem er með viðkomandi sjóðfélaga í meðferð/meðhöndlun.

c. Hvað er sjúkradagpeningavottorð?

Sjúkradagpeningavottorð er vottorð sem staðfestir óvinnufærni einstaklings. Þar koma meðal annars fram ítarlegar upplýsingar um sjúkdómsgreiningar ásamt staðfestingu á óvinnufærni (hvort sem er að fullu eða að hluta) og tímabil óvinnufærnis. 

Ath! að mælst er til þess að læknir viðkomandi sjóðfélaga haldi í lágmarki ítarlegum upplýsingum er fram koma í liðunum “Sjúkrasaga” og “Skoðun og rannsóknir” á sjúkradagpeningavottorðinu.

13. Sjúkradagpeningar samhliða námi

a. Get ég verið á sjúkradagpeningum samhliða námi?

Að jafnaði eru ekki greiddir sjúkradagpeningar til sjóðfélaga sem er skráður til náms sem er lánshæft til framfærslu frá Menntasjóði námsmanna. 

Stjórn Styrktarsjóðs BHM er þó heimilt að meta hvert tilfelli fyrir sig.

b. Fullt nám sem er eingöngu lánshæft til skólagjalda, hefur það áhrif á sjúkradagpeninga?

Fullt nám sem er eingöngu lánshæft til skólagjalda frá Menntasjóði námsmanna hefur ekki áhrif á sjúkradagpeninga. 

Á heimasíðu Menntasjóðs námsmanna er tilgreint hversu margar ECTS-einingar skilgreina fullt nám sem lánshæft er til skólagjalda.

14. Greiðsla félagsgjalds og greiðslur í sjóði BHM af sjúkradagpeningum

a. Er greitt félagsgjald af sjúkradagpeningum?

Það er ekki greitt félagsgjald til aðildarfélags viðkomandi sjóðfélaga af sjúkradagpeningum.

b. Er greitt í sjóði BHM af sjúkradagpeningum?

Það er ekki greitt í sjóði BHM af sjúkradagpeningum. Sjóðfélagi viðheldur áunnum réttindum í sjóðum BHM sem viðkomandi átti til staðar þegar greiðslur sjúkradagpeninga hefjast.

15. Lífeyrissjóður og séreignarsjóður

a. Er greitt af sjúkradagpeningum í lífeyrissjóð?

Það er ekki greitt til lífeyrissjóðs af sjúkradagpeningum.

b. Get ég greitt í séreignasjóð af sjúkradagpeningum?

Styrktarsjóður BHM greiðir ekki í séreignasjóðsgjald fyrir sjóðfélaga í þann séreignasjóð sem viðkomandi er greiðandi í.

c. Greiðir Sjúkrasjóður BHM mótframlag í séreignasjóð?

Styrktarsjóður BHM greiðir ekki mótframlag fyrir sjóðfélaga í séreignasjóð viðkomandi.