Af kynjuðum kostum

Grein eftir formann BHM í Kjarnanum á kvennafrídegi, 24. október 2021.

24.10.2021

Hún var gædd ómetanlegum kostum, lét sér annt um aðra, var dugleg, ósérhlífin og gestrisin.

Eitt einkenni minningargreina um konur er að þær eru oft mærðar fyrir gott hjartalag og fórnir[1]. Mun sjaldnar er þeim hrósað fyrir hugvit, hörku, útsjónarsemi, ákveðni eða viðlíka þætti. Ástæðan er síður en svo að þær búi ekki yfir þessum kostum. Samfélagið virðist hins vegar fast í þeirri hugsun að æðsta og besta dyggð kvenna sé umönnun og gæska. Að leiða, þrífa, fæða, klæða, hugga og hrósa.

Það er þessi „mýkt“ sem er sögð konum eðlislæg. Raunin er aftur á móti sú að þessir eiginleikar eru lærð hegðun og hæfni sem samfélagið leggst á eitt við að þroska í stúlkum og konum. Enda eru þetta frábærir hæfileikar og ómetanlegir, hvort sem það er innan heimilis eða á vinnumarkaði. Raunar eru þeir beinlínis nauðsynlegir til að sinna flestum störfum samfélagsins. Friðrik Jónsson, formaður BHM.

Virðismatið er aftur á móti rammskakkt. Við erum þakklát konum með þessa hæfni og sérhæfingu en við þráumst við að meta hana til tekna. Starfsstéttir þar sem konur eru í meirihluta koma verst út úr launasamanburði ár eftir ár. Samkvæmt nýrri skýrslu forsætisráðuneytisins um verðmætamat kvennastarfa eru 72% kvenna í þeim atvinnugreinum sem eru á lægri helmingi launaskalans á vinnumarkaði, en karlar eru 75% þeirra sem vinna störfin í efri helmingnum[2] „Hefðbundin kvennastörf“ bera með sér forskrift ómálefnalegrar mismununar. Þar má reikna með að launin séu jafn rýr og vinnan telst „mjúk“. Vangreiðslan er viðurkennd eins og einhvers konar náttúrulögmál. Þessu þarf að breyta, því það eru þrátt fyrir allt til leiðir til að meta „ómetanlega“ kosti til launa.

Í fyrrnefndri skýrslu forsætisráðuneytisins eru lagðar til aðgerðir til að meta þessa „mjúku“ hæfni sem jafnan er tileinkuð konum til tekna. Hvað ætli gerist ef þættir eins og samhygð, innsæi, geta til teymisvinnu og árangur í mannlegum samskiptum við ólíka einstaklinga og hópa yrðu hluti af raunverulegu verðmætamati? Við myndum fá réttlátara samfélag.

Konur eiga ekki að þurfa að ganga út kl. 15:10 á kvennafrídeginum 24. október ár hvert til að krefjast betri kjara og sannvirðis á starfshæfileikum, menntun og reynslu. Samfélagið verður að ráðast í markvissar aðgerðir til að jafna laun, tækifæri, ævitekjur, lífeyrisréttindi og meta raunverulegt virði starfa. Kostir eins og samhygð, innsæi og mannleg samskipti skipta máli. „Mýktin“ er nauðsynleg á vinnumarkaði og hana ber að meta til launa. Hún er ekki kynjaður kostur, hún er nauðsynleg krafa og þannig eðlileg og sjálfsögð breyta í mati til launa. Kjör fólks á að meta á sanngjörnum, hlutlægum og málefnalegum grunni. Ekki á kyni.

Friðrik Jónsson, formaður BHM.


[1] „Síðasta orðið um konur og karla: Um persónulýsingar í minningargreinum“ eftir Arndísi Þorgeirsdóttur og Guðrúnu Björk Kristjánsdóttur.

[2] Sjá bls. 12 í skýrslu um verðmætamat kvennastarfa.