• Þórunn Sveinbjarnardóttir
    Thorunni_i_stol

Alltaf í vinnunni?

Grein Þórunnar Sveinbjarnardóttur, formanns BHM, í Morgunblaðinu 14. mars 2019

14.3.2019

Innan stéttarfélaga og samtaka launafólks er uppi skýr og vaxandi krafa um bætt jafnvægi milli vinnu og einkalífs. Fólk vill sinna sínum störfum en jafnframt hafa svigrúm til að rækta sjálft sig og njóta samvista við sína nánustu. Kallað er eftir því að á vinnustöðum sé tekið tillit til mismunandi þarfa og aðstæðna starfsfólks. Einnig er kallað eftir því að skilin milli vinnu og frítíma verði gerð skýrari. Margir eru stöðugt tengdir við vinnu sína gegnum tölvur eða snjalltæki. Vinnan er ekki lengur bundin við afmarkaðan stað og stund, eins og áður var, heldur fylgir hún starfsmönnum nánast við hvert fótmál, jafnvel allan sólarhringinn. Slík sítenging getur verið streituvaldandi, truflað fjölskyldulífið og stuðlað að ýmsum kvillum sem, sé ekkert að gert, geta leitt geta til kulnunar í starfi. 

Í lok þessa mánaðar losna kjarasamningar 21 aðildarfélags BHM við ríki og sveitarfélög. Í ítarlegri kröfugerð félaganna er m.a. lögð áhersla á breytingar sem miða að því að bæta jafnvægi milli vinnu og einkalífs og skapa fjölskylduvænan vinnumarkað. Bæði er hér um að ræða kröfur til viðsemjenda um breytingar á ákvæðum kjarasamninga og kröfur gagnvart ríkisvaldinu um lagabreytingar eða aðrar ráðstafanir:

Stytting vinnuviku

Hóflegur vinnutími er lykilatriði í samspili fjölskyldulífs og vinnmarkaðrar. BHM telur mikilvægt að í komandi kjaraviðræðum verði tekin markviss skref í átt að styttingu vinnuvikunnar.

Réttur til launaðrar fjarveru vegna fjölskylduaðstæðna

BHM leggur áherslu á að réttur fólks til launaðrar fjarveru vegna veikinda barna verði útvíkkaður þannig að hann nái einnig til veikinda eða umönnunar nákominna skyldmenna, s.s. foreldra eða systkina. Samkvæmt gildandi kjarasamningum BHM-félaga við ríki og sveitarfélög eiga félagsmenn rétt á að verja allt að 12 vinnudögum á ári til að annast um veik börn yngri en 13 ára. BHM fer fram á að dögunum verði fjölgað og rétturinn nái bæði til barna (til 18 ára aldurs) og nákominna skyldmenna. Þá vill bandalagið að félagsmenn eigi rétt á launaðri fjarveru vegna andláts barns, maka eða náins skyldmennis en réttur til fjarveru á launum vegna andláts nákomins ættingja eða aðstandanda er þegar fyrir hendi í kjarasamningum við Samband íslenskra sveitarfélaga.

Dregið verði úr tekjutengingum barna- og vaxtabóta

Stuðningur við ungt fólk og barnafjölskyldur er mikilvægur liður í því að skapa fjölskylduvænan vinnumarkað. Tekjutengingar barna- og vaxtabóta koma illa við marga félagsmenn aðildarfélaga BHM. Brýnt er að draga úr þessum tengingum.

Breytingar á orlofsrétti

BHM fer fram á að orlof lengist um þriðjung þegar sumarorlof er tekið utan orlofstímabils (sem er frá 1. apríl til 15. september), óháð því hvort orlofið er tekið að beiðni yfirmanns eða að frumkvæði starfsmanns.

Heilbrigt vinnuumhverfi

Mikilvægt er að tryggja að vinnuaðstæður séu með þeim hætti að þær ógni ekki heilsu starfsmanna. Leggja þarf aukna áherslu á forvarnir og heilsuvernd á vinnustöðum, m.a. til að koma í veg fyrir óhóflegt álag og streitu. Sérstaklega þarf að huga að því að móta skýrar reglur um vinnutengd samskipti utan hefðbundins vinnutíma. Vel kemur til greina að afmarka þann tíma skýrt sem starfsmaður hefur rétt á að vera látinn í friði.

Fæðingarorlof

BHM leggur áherslu á að fæðingarorlof verði lengt í 12 mánuði. Jafnframt þarf að hækka hámarksgreiðslur verulega. Hvort tveggja er nauðsynlegt til að jafna möguleika kvenna og karla til að samræma fjölskyldulíf og þátttöku á vinnumarkaði.

BHM bindur vonir við að unnt verði að semja um framangreindar breytingar í komandi kjarviðræðum við ríki og sveitarfélög. Þátttaka á vinnumarkaði hér á landi er með því mesta sem þekkist. Í því ljósi er afar brýnt að skipulag vinnumarkaðarins og réttindi launafólks á honum stuðli að jafnvægi á milli atvinnu og einkalífs, óháð fjölskylduaðstæðum.