• Þórunn Sveinbjarnardóttir
    Thorunn2

Ein útborguð mánaðarlaun á ári

Grein Þórunnar Sveinbjarnardóttur, formanns BHM, í Fréttablaðinu 26. mars 2019

26.3.2019

Flestir háskólanemar fjármagna nám sitt með námslánum sem eru verðtryggð og bera 1% vexti. Algengt er að fólk sem leggur á sig langt og strangt nám skuldi margar milljónir króna í námslán að því loknu. Lántaki greiðir um 4% af launum sínum í afborganir af námslánum eða sem samsvarar u.þ.b. einum útborguðum mánaðarlaunum á ári. Fyrir marga er þetta þung byrði enda er fólk á sama tíma að hasla sér völl á vinnumarkaði, eignast börn og koma sér þaki yfir höfuðið.

Aðildarfélög BHM eru nú að búa sig undir kjaraviðræður við ríki og sveitarfélög en samningar losna í lok þessa mánaðar. Í væntanlegum viðræðum munu félögin m.a. leggja áherslu á að breytingar verði gerðar á námslánakerfinu, einkum á reglum er varða endurgreiðslur námslána.

Í fyrsta lagi vill BHM að komið verði til móts við greiðendur námslána sem jafnframt hafa fyrir fjölskyldu að sjá og/eða hafa tekið húsnæðislán. Farið er fram á að reglum um tekjutengingu vaxta- og barnabóta verði breytt þannig að árlegar afborganir, vextir og verðbætur af námslánum dragist frá þeim stofni sem notaður er við útreikning bótanna.

Í öðru lagi telur BHM að eftirstöðvar námsláns eigi að falla niður þegar lífeyristökualdri er náð eða þegar greitt hefur verið af láni í 40 ár. Nú eru námslán ótímabundin og fyrnast ekki.

Í þriðja lagi telur BHM að auðvelda eigi lántökum að greiða upp námslán, þ.e.a.s. þeim sem á annað borð hafa tök á því að greiða upp sín lán. Samkvæmt núgildandi reglum sjóðsins er veittur 7% uppgreiðsluafsláttur þegar greitt er upp ógjaldfallið lán. Hækka ætti þennan afslátt upp í 20%.

Loks leggur BHM áherslu á að ábyrgðamannakerfið verði afnumið að fullu. Enn eru í gildi sjálfskuldarábyrgðir á námslánum sem tekin voru fyrir 2009. Frá þeim tíma hefur Lánasjóður íslenskra námsmanna ekki krafist sjálfsskuldarábyrgðar á lánunum. Í þessu felst augljós mismunun og ósamræmi sem ekki er hægt að una við.