• Thorunn

Félagslegur stöðugleiki er forsenda stöðugleika á vinnumarkaði

Ávarp Þórunnar Sveinbjarnardóttur, formanns BHM, á Ingólfstorgi 1. maí 2018

1.5.2018


1.

Það er dýrt að hækka laun á Íslandi!

Skrifaði forkólfur í atvinnulífinu í dagblað fyrir stuttu. Hann vildi brýna fyrir okkur  hinum að standa vörð um þá góðu stöðu sem náðst hefur í efnahagslífinu og líka vekja athygli á háum launakostnaði á Íslandi.  Í sömu grein var bent á öfundsverða stöðu atvinnurekenda í nágrannalöndum okkar.

Bara ef allt væri jafn gott hér og þar!

Ég tek undir með þeim sem segja að dýrt sé að búa á Íslandi. En það er fyrst og fremst dýrt fyrir venjulegt launafólk að búa á Íslandi. Það getur jafnvel reynst fjölskyldum svo dýrkeypt að sjá fyrir sér og sínum að fólk flytur úr landi í leit að betri launum, traustari velferð, fjölskylduvænna samfélagi og betri heilbrigðisþjónustu.

Góðæristalið hið nýja er í hámarki og stundum er eins og við höfum ekkert lært. En það eru ekki allir að njódda og slagga. Alltaf eru það sömu hóparnir gleymast. Fólkið sem ekki hefur notið uppgangsins sem sést hefur í vísitölum efnahagslífsins  á undanförnum árum. Þið vitið hverja ég er að tala um: fólkið á lægstu laununum, einstæðar mæður, barnmargar fjölskyldur, fólk sem hefur misst heilsuna og margir eldri borgarar – ekki þó allir því að í þeim hópi má líka finna ríkasta fólkið í þessu samfélagi.

Um leið og klifað er á því að hagsældin hafi aldrei verið meiri hér á landi er sjaldan á það minnst að þess hagsæld skapaði launafólk í landinu með því að taka  högg hrunsins á sig af fullum þunga. Það átti þess ekki kost að flýja með peningana sína til útlanda og fela í aflöndum frá skattinum og þátttöku í rekstri samfélagsins. Skattgreiðendur, fólk og fyrirtæki, halda þessu samfélagi gangandi ekki fjármagnselítan.

Ekkert á Íslandi getur orðið eins og í útlöndum, ef menn ætla að taka sumt í þeim samfélögum sér til fyrirmyndar en ekki annað því að stöðugleiki á vinnumarkaði verður aldrei aðskilinn frá traustri velferð, réttlátri dreifingu skattbyrðar og stöðugum gjaldmiðli. 

Hvorki stjórnvöld né atvinnurekendur geta nálgast umræðuna um launakjör í landinu eins og  börn nálgast hlaðborð, bara fengið sér það sem er sætt og gott en ekki étið gulræturnar og grænkálið!

Hin margumbeðna sátt á vinnumarkaði verður aðeins ef stjórnvöld axl sínar skyldur í slíku fyrirkomulagi.  Í samfélögum þar sem útflutningsgreinar sem byggja á auðlindanýtingu drífa vöxtinn áfram  er hætt við efnahagslegum óstöðugleika – reglulega. Við getum ekki stólað á áframhaldandi ævintýralegan og algjörlega óheftan uppgang í ferðaþjónustunni. Ekki frekar en við gátum stólað á stöðuga aukningu fiskaflans í lok síðustu aldar. Við þurfum á fjölbreyttu atvinnulífi að halda sem skapar ný störf fyrir nýjar kynslóðir.

Efnhagsstjórnin snýst líka um að standast gamlar freistingar en nú þegar má heyra forystumenn útflutningsgreinanna kyrja sönginn gamla um sterka krónu og nauðsyn þess að lækka gengið.

Höfum eitt alveg á hreinu: 

Næsta lota kjarasamninga verður ekki leyst með gengisaðlögun fyrir útflutningsgreinarnar á kostnað launafólks og heimilanna í landinu. Það mundi ekki stuðla að stöðugleika, heldur þvert á móti valda óánægju og ólgu. Vonandi verður ekki gripið til gamaldags hrossalækninga.

Ef við viljum stöðugleika eins og annars staðar, þá skulum við líka sníða okkur stakk eftir vexti: jöfnum skattbyrðina, setjum húsnæðismál í forgang, borgum barnabætur til þorra fjölskyldna ekki bara þeirra sem verst eru settar og endurreisum opinbert heilbrigðiskerfi, svo að sómi sé að.

Við biðjum ekki um annað!

Jú, reyndar. Það er eitt atriði í viðbót sem getur ráðið úrslitum um framtíðina.


2.

Það er staða kvennastétta á vinnumarkaði.

Við viljum að kvennastéttunum sem bera uppi menntun og heilbrigði landsmanna séu greidd laun sem endurspegla raunverulegt virði starfanna. Þjóðarátak til að lyfta kvennastéttum kann að vera það eina sem dugar í stöðunni. Slík aðgerð kallar á samvinnu og samstöðu þvert á heildarsamtök launafólks; nýja þjóðarsátt.

Almenningur hefur fylgst forviða með kjaradeilu ljósmæðra við ríkið. Elsta fagstétt kvenna á Íslandi mætir stífni og skilningsleysi af hálfu ríkisins.

Ég ætla að fullyrða hér að þjónusta við sængurkonur og nýfædd börn sé undirstaða allrar velferðar á Íslandi. Við erum að tala um fjöregg þjóðar.

En ljósmæður líkt og margar háskólamenntaðar kvennastéttir standa frammi fyrir þeim kalda veruleika að menntun þeirra er kerfisbundið ekki metin til launa.


3.

Á síðustu öld háðu stéttarfélög og samtök launafólks langa og erfiða baráttu fyrir styttingu vinnuvikunnar. Árið 1971 var markmiðinu um 40 stunda vinnuviku loks náð með lögum frá Alþingi.

Síðan er liðin næstum hálf öld. Á þessum tíma hefur samfélagið tekið stórstígum breytingum. Þrennt skiptir þar mestu: þátttaka kvenna á vinnumarkaði, menntunarsókn landsmanna og framfarir í upplýsingatækni.

Við stöndum frammi fyrir enn einni byltingu – fjórðu iðnbyltingunni. Tæknin er komin á það stig að mögulegt er að láta vélarnar leysa mjög flókin verkefni sem mannshugurinn og -höndin hafa hingað til þurft að leysa. Rætt eru um að gervigreind og sjálfvirkni muni senn verða allsráðandi í allri framleiðslu sem og í ýmsum þjónustu- og sérfræðigreinum.

Þróunin er hröð. Sumir líta á þessa þróun sem ógnun en aðrir sjá í henni mikil tækifæri. Gegnum aldirnar var líf venjulegs fólks í okkar heimshluta nánast eintómt puð og strit. Samt bjuggu margir við sáran skort. Þetta fólk skorti eiginlega allt – nema puð og strit. Nú er því spáð að í framtíðinni verði skortur á störfum – sjálf vinnan verði takmörkuð auðlind.

En hvað þýðir þetta í raun fyrir kjara- og réttindabaráttu launafólks? 

Í fyrsta lagi hlýtur krafan um styttingu vinnuvikunnar að verða æ sterkari. 

Tilraunaverkefni BSRB, Reykjavíkurborgar og ríkisins um styttingu vinnuvikunnar lofar góðu. Reynslan sýnir okkur að það er hægt að stytta vinnuvikuna án þess að það bitni á afköstum og framleiðni. En það er ekki sama hvernig það er gert.

Samtök atvinnulífsins hafa lýst forneskjulegu viðhorfi til styttingar vinnuvikunnar. Viðhorfum sem eru úr takti við alla umræðu um þessi mál, bæði hér heima og erlendis.

Styttri vinnuvika er lykillinn að því að okkur auðnist að skapa hér vinnumarkað sem er raunverulega fjölskylduvænn. Með breytingunni stuðlum við líka að minna álagi í starfi og drögum úr líkum á því að fólk verði kulnun að bráð og missi heilsuna, sem því miður er alltof algengt. Styttri vinnuvika er hagsmunamál alls samfélagsins – allra hagur!


4.

Í kjarasamningum við ríki og sveitarfélög á næsta ári hafa viðsemjendur okkar val um að semja um raunverulegar breytingar á vinnumarkaði eða að hjakka í sama farinu áfram.  Ef krafa viðsemjenda okkar verður um stöðugleika á vinnumarkaði þá hljóta  þeir að bjóða alvöru aðgerðir til að tryggja félagslegan stöðugleika hér á landi. Nýtt og samræmt lífeyriskerfi þýðir einnig að þá gefst stjórnvöldum tækifæri til að efna fyrirheit um jöfnun launa milli markaða. 

Þetta er hægt með góðum pólitískum vilja, samtali aðila vinnumarkaðarins og samtakamætti launafólks en ríkisstjórnin á fyrsta leik! 

Takk fyrir.