• Thorunn

Erum stödd í „fjórðu iðnbyltingunni“

Ávarp formanns BHM, Þórunnar Sveinbjarnardóttur, í tilefni af aðalfundi BHM 18. maí 2017

7.6.2017

Ágætu félagar,

Síðastliðið ár markaði þáttaskil í kjara- og réttindamálum opinberra starfsmanna. Á Alþingi voru samþykkt lög um breytingar á A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR) en þau eru einnig grundvöllur breytinga á A-deild Brúar lífeyrissjóðs. Lagasetninguna má rekja til svokallaðs stöðugleikasamkomulags sem stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins gerðu með sér í júní 2009. Þar var samþykkt að ganga til viðræðna um framtíðarskipan lífeyrismála með það að markmiði að samræma lífeyrisréttindi á milli almenns og opinbers vinnumarkaðar. Nefnd sem skipuð var á grunni samkomulagsins skilaði niðurstöðu vorið 2015 en þá átti eftir að komast að samkomulagi sem tryggði að kerfisbreytingin skerti ekki réttindi núverandi sjóðfélaga. Sú vinna fór af stað haustið 2015 og stóð með hléum í eitt ár. Í september 2016 undirritaði ég í umboði formannaráðs BHM samkomulag um nýskipan lífeyrisréttinda opinberra starfsmanna við fjármála- og efnahagsráðuneytið, fyrir hönd ríkisins, og Samband íslenskra sveitarfélaga, ásamt BSRB og KÍ. Samkvæmt samkomulaginu er sjóðfélögum í A-deild LSR sem starfa hjá ríkisstofnunum, sem fjármagnaðar eru að meiri hluta til með ríkisfé, tryggður lífeyrisauki sem viðheldur jafnri ávinnslu réttinda sem miðast við að lífeyristaka hefjist við 65 ára aldur. Framtíðarskuldbindinguna fjármagnaði ríkið fyrir sitt leyti með rúmlega 100 milljarða króna framlagi í ríkissjóð en stöðugleikaframlög úr þrotabúum föllnu bankanna gerðu það kleift. Sveitarfélögin samþykktu að fjármagna lífeyrisaukann fyrir sitt leyti þó með öðrum hætti sé.

En eigi er sopið þótt í ausuna sé komið. Ólokið var gerð frumvarps um breytinguna hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu en þegar það kom fram varð ljóst á efni þess að hið opinbera ætlaði ekki að uppfylla samkomulagið með þeim hætti sem því bar. Frumvarpið var lagt tvisvar fram á Alþingi sl. haust (fyrir og eftir alþingiskosningar) og í bæði skiptin skellti þingheimur skollaeyrum við athugasemdum BHM, BSRB og KÍ um misræmi í efni þess og ákvæðum samkomulagsins. Frumvarp ríkisstjórnarinnar varð svo að lögum lítillega breytt 22. desember 2016. Hófst þá nýr kafli í þessu mikilvæga máli er stjórn LSR hóf vinnu við nýjar samþykktir fyrir A-deild sjóðsins á grunni lagasetningarinnar. Stjórn LSR afgreiddi breytingar á samþykktum A-deildar í mars sl. Stjórn Brúar gerði breytingar á samþykktum A-deildar í maí en þegar þessi orð eru skrifuð hafa stofnaðilar Brúar ekki afgreitt samþykktirnar fyrir sitt leyti. Nýskipan A-deilda LSR og Brúar tekur gildi 1. júní nk.

Hið nýja lífeyriskerfi mun mest áhrif hafa á kjör og stöðu nýrra opinberra starfsmanna, þ.e. þeirra sem hefja störf hjá ríki eða sveitarfélögum eftir 1. júní 2017. Þeim verða búin sömu réttindi og á almenna markaðnum, þ.e.a.s. aldurstengd ávinnsla réttinda og lífeyristaka miðuð við 67 ára aldur, sem vissulega tryggir hreyfanleika á vinnumarkaði en krefst þess einnig að launakjör hjá hinu opinbera taki stakkaskiptum til hins betra í náinni framtíð. Í samræmi við samkomulagið  er nýhafin vinna starfshóps um jöfnun launa á milli almenna og opinbera markaðarins. Honum er ætlaður langur tími til að komast að niðurstöðu en ljóst er að kjör nýrra starfsmanna þurfa að breytast hratt og örugglega til hins betra ef ríki og sveitarfélög ætla ekki að verða undir í samkeppninni um hæft háskólamenntað starfsfólk.

Fleira veldur því að kjör og vinnuaðstæður háskólafólks eru í deiglunni. Æ fleiri eru sjálfstætt starfandi og/eða gegna hlutstörfum. Oft er um tímabundnar og ótryggar ráðningar að ræða. Sú tíð að stéttir háskólamenntaðra embættismanna geti gengið að öruggum störfum hjá hinu opinbera vísum að loknu námi er löngu liðin. Samkeppnin um störfin er hörð á vinnumarkaði. Á málþinginu „Lykill eða lás?“ sem BHM hélt í samstarfi við Þjónustuskrifstofu FFSS og Norræna húsið á liðnu ári var m.a. fjallað um örar breytingar á vinnumarkaði. Við erum stödd í „fjórðu iðnbyltingunni“ og horfumst í augu við gríðarlegar breytingar á starfsumhverfi háskólafólks og kröfum sem til þess eru gerðar. Framfarir á sviði upplýsingatækni, t.d. á sviði gervigreindar, geta valdið meiri breytingum á umhverfi háskólamanna á næstu áratugum en nokkurn óraði fyrir. Að mínu áliti þarf BHM að huga vel að áhrifum þessara breytinga á vinnumarkað háskólamanna og móta sér skýra stefnu um viðbrögð við þeim.

Í fyrra gerði BHM samstarfssamning við Landssamtök íslenskra stúdenta (LÍS) sem nýlega var endurnýjaður til eins árs. Bandalagið býður LÍS skrifstofuaðstöðu í Borgartúni 6 og hefur á liðnu ári átt í margvíslegum samskiptum við samtökin, m.a. vegna frumvarps um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Starfsemi LÍS er kraftmikil og mikilvæg tenging BHM við stúdentahreyfingarnar hér á landi. Full ástæða til að efla samstarfið á komandi starfsári.

Gildistími gerðardóms yfir 18 aðildarfélögum BHM rennur út í lok sumars. Skrifstofa bandalagsins aðstoðar félögin eftir föngum við undirbúning og upplýsingasöfnun í aðdraganda kjaraviðræðna við ríkið. Þá standa einnig yfir viðræður aðildarfélaga við Samtök atvinnulífsins um endurskoðun kjarasamnings. Bætt vinnubrögð á vinnumarkaði hafa nokkuð verið til umræðu, m.a. á vettvangi Samstarfsnefndar um launaupplýsingar og efnahagsforsendur kjarasamninga (salek). Salek-hópurinn fékk Steinar Holden, prófessor við Oslóarháskóla, til að gera úttekt á samskiptum á íslenskum vinnumarkaði og skilaði hann skýrslu með tillögum til úrbóta. Varla er deilt um að mörgu megi breyta til batnaðar í samstarfi aðila vinnumarkaðarins en þegar að því kemur að gera nauðsynlegar umbætur virðist sem menn þrjóti örendið. Samstarf á vettvangi salek-hópsins hefur legið niðri í vetur en merkja má aukinn áhuga stjórnvalda á því brýna verkefni að færa umgjörð, öflun og aðgengi að launatölfræði hér á landi nær því sem gerist í nágrannalöndunum. Það er mikið fagnaðarefni og mun BHM ekki liggja á liði sínu í því starfi.

Að lokum verður ekki hjá því komist að minnast á úrskurð Kjararáðs sem birtur var daginn eftir alþingiskosningarnar í október 2016. Með einu pennastriki voru laun æðstu ráðamanna þjóðarinnar hækkuð um allt að 44% í einu skrefi. Það er í engu samræmi við þá launastefnu sem ríkið segist aðhyllast og birtist í rammasamkomulagi sem gert var haustið 2015. Úrskurður Kjararáðs var og er til þess fallinn að valda uppnámi á vinnumarkaði og óhætt er að fullyrða að til hans verður litið til viðmiðunar í komandi kjaraviðræðum.

Mig langar að þakka formönnum aðildarfélaga BHM fyrir samstarfið á árinu og einnig starfsfólki bandalagsins og sjóðanna, sem daglega veitir félagsmönnum mikilvæga þjónustu og stendur vörð um réttindi og kjör háskólafólks á Íslandi.