• formenn
    Frá vinstri: Sture Fjäder (Akava, Finnlandi), Göran Arrius (Saco, Svíþjóð), Þórunn Sveinbjarnardóttir (BHM, Ísland), Lars Qvistgaad (AC, Danmörku) og Kari Sollien (Akademikerne, Noregi).

Frá Airbnb til netvanga fyrir háskólamenntað fólk

Sameiginleg grein formanna bandalaga háskólafólks á Norðurlöndum sem birtist í Morgunblaðinu 2. september 2019

2.9.2019

Fyrirtækið Samfunnsøkonmisk Analyse (SØA) í Noregi hefur, að tilstuðlan bandalaga háskólafólks á Norðurlöndum, gert úttekt á vaxtarmöguleikum svokallaðra „netvanga“ en það eru vefsíður sem hafa milligöngu um kaup og sölu á þjónustu. Skýrsla úttektarinnar var kynnt á samnorrænni ráðstefnu í Malmö í dag, 2. september 2019.

Skýrslan leiðir í ljós að umsvif slíkra netvanga eru ekki ýkja mikil enn sem komið er. En það er sannfæring þeirra sem úttektina unnu að framundan sé vöxtur á þessu sviði og því er nauðsynlegt fyrir stéttarfélög að fylgjast vel með þróuninni.

Fram kemur að hér er ekki einungis um að ræða þjónustu eins og Airbnb heldur munu netvangar einnig ná til starfa margs konar sérfræðinga, s.s. þýðenda, sálfræðinga, verkfræðinga, lögfræðinga og hagfræðinga. Margt háskólafólk lítur það jákvæðum augum að geta starfað undir öðrum formerkjum en hefðbundnu ráðningarsambandi.

Það er á ábyrgð stjórnmálamanna að tryggja að lagaumhverfi vinnumarkaðar taki mið af tækniframförum og að einstaklingum séu tryggð réttindi óháð ráðningarformi. Enn fremur er mikilvægt að löggjöf og reglur um persónuvernd fylgi þróun tækninnar.

Netvangar eru kærkomin leið til nýsköpunar, sveigjanleika, hagvaxtar og fjölgunar starfa fyrir háskólamenntað fólk, svo fremi sem félagsmönnum okkar eru boðin góð kjör og leikreglum vinnumarkaðarins er fylgt. Við munum aldrei sætta okkur við að netvangar verði notaðir til að lækka laun eða skerða kjör og réttindi félagsmanna okkar á annan hátt.

Hvernig eiga þá stéttarfélög háskólafólks að bregðast við þessum breyttu aðstæðum?

Miðlægir kjarasamningar eru mikilvægur þáttur í norræna vinnumarkaðslíkaninu. Á grundvelli kjarasamninga standa launafólki til boða góð og viðeigandi starfskjör. Við sjáum ekkert því til fyrirstöðu að gerðir séu kjarasamningar við atvinnurekendur vegna vinnu sem unnin er gegnum netvanga. Kjarasamningar eru í eðli sínu sveigjanlegir og nú blasir við það verkefni að laga þá að nýjum aðstæðum. Ábyrgðin á þessu verkefni liggur jafnt hjá stéttarfélögum sem fyrirtækjum.

Stéttarfélögin þurfa einnig að hugsa upp nýjar leiðir til að ná til þeirra félagsmanna sem starfa gegnum netvanga. Við þurfum að höfða til alls háskólamenntaðs fólks, óháð því hvernig sambandi þess við atvinnurekendur er háttað. Aðildarfélög okkar, sem miða félagsaðild við tiltekna menntun eða starfsgrein, búa yfir mikilli reynslu í þessum efnum og ættu auðveldlega að geta höfðað til fólks í föstu ráðningarsambandi jafnt sem sjálfstætt starfandi fólks.

Við verðum að tryggja viss réttindi fyrir alla okkar félagsmenn. Við höfum mikilvægum skyldum að gegna gagnvart þeim, óháð því hvar og hvernig þeir vinna. Við þurfum að geta útskýrt fyrir þeim hvaða áhrif mismunandi vinnufyrirkomulag hefur á stöðu þeirra og ýmis réttindi, s.s. lífeyrisréttindi og atvinnuleysistryggingar. Markmið okkar er að félagsmenn geti tekið upplýstar ákvarðanir í þessu sambandi. Við viljum vinna að því að allir félagsmenn búi við sambærileg starfskjör og réttindi, óháð því hvernig tengslum þeirra við atvinnurekanda er háttað.

Göran Arrius, formaður Saco, Svíþjóð
Kari Sollien, formaður Akademikerne, Noregi
Lars Qvistgaard, formaður AC, Danmörku
Sture Fjäder, formaður Akava, Finnlandi
Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM