• bhm_grand_hotel-1

Greiðslubyrðin er of þung

Grein Þórunnar Sveinbjarnardóttur, formanns BHM, í Fréttablaðinu 11. mars 2020

11.3.2020

Segja má að fólk sem leggur fyrir sig langskólanám fórni dýrmætum árum á vinnumarkaði samanborið við þau sem byrja fyrr að vinna. Háskólanemar hafa almennt ekki tekjur né ávinna sér lífeyrisréttindi meðan á námi stendur og þurfa flestir að taka námslán til að fjármagna framfærslu sína. Eftir að námi lýkur þarf fólk svo að greiða um 4% af launum sínum í afborganir af lánunum. Þetta getur verið þung byrði á sama tíma og fólk er að fóta sig á vinnumarkaði, stofna fjölskyldu og koma sér þaki yfir höfuðið.

BHM hefur lengi barist fyrir því að dregið verði úr endurgreiðslubyrði námslána og að eftirstöðvar slíkra lána falli niður þegar lífeyristökualdri er náð eða greitt hefur verið af láni í 40 ár. Eins og staðan er nú eru námslán ótímabundin og fyrnast ekki.

Í viðhorfskönnun sem BHM lét nýlega gera meðal félagsmanna aðildarfélaga sögðust 40% svarenda sem skulda námslán finna mikið fyrir greiðslubyrðinni eða telja hana verulega íþyngjandi fyrir heimilið. Tæplega helmingur sagðist finna nokkuð fyrir henni og um 1% sagðist ekki ráða við að greiða af námslánum sínum. Einungis 12% sögðust finna lítið fyrir greiðslubyrðinni.

Þessar niðurstöður undirstrika enn frekar mikilvægi þess að stjórnvöld komi til móts við greiðendur námslána með ráðstöfunum til að minnka greiðslubyrði þeirra. Í þessu sambandi er rétt að minna á tillögur sem starfshópur á vegum forsætisráðherra skilaði á síðasta ári. Þær fela m.a. í sér að endurgreiðsluhlutfall námslána, þ.e. það hlutfall af launum sem lánþegi greiðir í afborganir, verði lækkað og vextirnir sömuleiðis. BHM treystir því að þessum tillögum verði hrint í framkvæmd hið fyrsta.

Í áðurnefndri könnun kom einnig fram að stór hluti lántakenda skuldar háar fjárhæðir. Um þriðjungur þeirra sem greiða af námslánum skuldar meira meira en 6 milljónir króna og um fimmtungur meira en 8 milljónir.

Þetta þýðir að margir núverandi lántakendur munu ekki ná að greiða upp námslán sín áður en þeir ná lífeyristökualdri. Mikilvægt er að reglum verði breytt þannig að eftirstöðvar falli niður ef lántaki hefur ekki náð að greiða upp lán sín þegar starfsævi hans eða hennar lýkur.