• bhm_grand_hotel-1

Hinar heilbrigðisstéttirnar

Grein Þórunnar Sveinbjarnardóttur, formanns BHM, í Fréttablaðinu 9. júní 2020

9.6.2020

Það er vel geymt leyndarmál að á Íslandi starfa 33 löggiltar starfsstéttir í heilbrigðisþjónustu. Í þeim stóra hópi eru m.a. ljósmæður, lífeindafræðingar, iðjuþálfar, geislafræðingar, þroskaþjálfar, félagsráðgjafar, sálfræðingar, náttúrufræðingar, sjúkraþjálfarar og talmeinafræðingar. Hvert mannsbarn þekkir til lækna, hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða en starfsstéttirnar sem ég nefndi áður virðast ekki jafn vel þekktar þótt þær séu allar orðnar rótgrónar. Það má þó teljast líklegt að farsóttin sem herjað hefur á landsmenn hafi opnað augu almennings fyrir störfum fleiri heilbrigðisstétta, t.d. lífeindafræðinga og náttúrufræðinga. Eða hver skyldu hafa greint öll sýnin sem tekin voru og greind á Landspítalanum og hjá Íslenskri erfðagreiningu? .

Fjöldi heilbrigðisstétta og menntun þeirra segir langa og merkilega sögu um framfarir í heilbrigðisþjónustu. Í nútímasamfélagi byggir góð heilbrigðisþjónusta á samvinnu fagstétta sem fram fer á jafnræðisgrundvelli. Óhætt er að fullyrða að best þjónusta er veitt þegar þverfagleg teymi leiða þjónustu við sjúklinga, aldraða, fatlað fólk og aðra sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda. Í kjölfar COVID-19 faraldursins þarf að huga sérstaklega að forvörnum, stuðningi og endurhæfingu fólks. Fyrir utan þau sem veiktust af veirunni og þarfnast endurhæfingar þá er uppsöfnuð þörf til staðar hjá fólki sem hefur lengi verið án þjónustu sjúkra-, iðju- eða þroskaþjálfa. Viðkvæmir hópar og fjölskyldur sem búa við erfiðar félagslegar aðstæður eiga á hættu að kljást við afleiðingar faraldursins í langan tíma ef ekki gripið til aðgerða. Þörfin til að byggja upp og styrkja innviði félags- og heilbrigðisþjónustu blasir við öllum sem hana vilja sjá.

Kjaradeila hjúkrunarfræðinga við ríkið og yfirvofandi verkfall þeirra er að sjálfsögðu í fréttum. Minna er rætt um þá staðreynd að enn er ósamið við stéttarfélög geislafræðinga og náttúrufræðinga, einum 14 mánuðum eftir að samningar losnuðu við ríkið. Það er algjörlega óviðunandi. BHM hvetur ríkisvaldið til að ganga þegar í stað til samninga við þessar mikilvægu heilbrigðisstéttir.