• IMG_0003

Hvað fékkstu margar stjörnur?

Grein eftir Marín Guðrúnu Hrafnsdóttur, varaformann Fræðagarðs, sem birtist í Fréttablaðinu 31. október 2019

1.11.2019

Varstu upp á þitt besta í vinnunni í dag, afkastaðir miklu, náðir öllu á réttum tíma og dreifðir orku og gleði til þess að fá sem besta umsögn? Hvað ertu annars með margar stjörnur?

Bandalög háskólamanna á Norðurlöndum kynntu nýlega skýrslu þar sem gerð var úttekt á umfangi netvanga eða vefsíðna sem hafa milligöngu um vinnu sem inna þarf af hendi. Umfangið er enn sem komið er ekki mikið á Norðurlöndum en stéttarfélög eru að búa sig undir að geta þjónustað þennan nýja hóp enda margt sem bendir til þess að sérfræðingar muni í framtíðinni margir hverjir starfa undir merkjum stjörnugjafar, líkt og við þekkjum svo vel hjá netvöngum á borð við Airbnb og Uber.

Ljóst er að vinnumarkaðurinn er að breytast. Í dag er e.t.v. meira vit í að spyrja ungt fólk hvar það hyggist byrja í stað hinnar hefðbundnu spurningar um hvað það ætli sér að verða, enda talið að endurmenntun og aðlögunarhæfni muni skipta öllu máli. Samfélög, fyrirtæki og stéttarfélög eru í óðaönn að búa sig undir breytinguna sem kennd hefur verið við fjórðu iðnbyltinguna enda hefur nú þegar fjöldi starfa breyst og sjálfvirkni og gervigreind sjást víða, t.a.m. í sjálfsafgreiðslukössum í matvörubúðum, bankasjálfsölum, róbótum í framleiðslu og nú er hægt að senda fyrirspurnir til lögfræðistofa um ýmis lögfræðileg álitaefni þar sem svarið berst um hæl. Reyndar sýna kannanir að margir vilja fremur fá næstum því rétt svar strax en kostnaðarsamt réttara svar sem tekur tíma (sjá t.a.m. Lögmannablaðið, 3. tbl. 2019).

Mitt í þessari tækni- og samfélagsþróun nútímans er fyrirbærið netvangur (e. digital platform). Þótt slíkar rafrænar starfsmannaveitur séu vart teknar til starfa hér á landi eru víða merki þess að verkefnaráðningum sé að fjölga. Útfærslur netvanga geta verið með ýmsu móti en þó minnir þessi tækninýjung nokkuð á það þegar hafnarverkamenn hímdu löngum stundum niðri á höfn í von um lausavinnu, um miðja síðustu öld.

Hafnarverkamenn, sem oft og tíðum verða að bíða eftir lausavinnu og aðrir verkamenn einnig, sérstaklega þegar almenn vinna er stopul svo sem nú er, þurfa nauðsynlega að hafa afdrep nærri athafnasvæðum bæjarins, þegar svo stendur á. Einnig er að slíku verulegt hagræði fyrir atvinnurekendur, sem kann að vanta verkamenn í vinnu um styttri tíma (Verkamaðurinn, 14. tbl. (4.7.1969), bls. 4).

Með tölvuna á kaffihúsi á Spáni

Þótt freistandi sé að vinna sjálfstætt, geta ráðið tíma sínum og þurfa lítið að spá í styttingu vinnuvikunnar blikka rauðu ljósin skært varðandi réttindi og öryggi á vinnumarkaði. Frelsi í vinnu getur nefnilega haft á sér tvær hliðar og enginn kýs að frelsisþráin fari eins og hjá Rósu og Bjarti í Sumarhúsum. Það að losna undan Rauðsmýrar­maddöm­unni þýddi nefnilega að Rósa gat ekki lengur leyft sér að ríða út á sunnudögum – frelsið á heiðinni þýddi enga hvíldardaga og harkið varð algjört. Hættan á því að sjálfstætt starfandi fái lítið sem ekkert frí er fyrir hendi og í umsagnarheimi er ekki gott að vera illa upplagður eða veikur. Þá er hætta á að stjörnunum fækki og þar með atvinnutækifærunum. Ef vinnumiðlun framtíðar fer að hluta fram á netinu vandast allt utanumhald vinnumarkaðsmódela, lágmarkslaun eru mismunandi á milli landa, veikinda- og orlofsréttindi og þannig mætti lengi telja. Ný vinnulöggjöf þarf að ná utan um þennan landamæralausa veruleika og tryggja réttindi við verkefnaráðningar og/eða í „gig“ hagkerfinu.

Þú færð fjórar og hálfa stjörnu í dag

Netvangar dagsins í dag eru stjörnugjafadrifnir. Ímyndum okkur að í lok vinnudags væri alltaf einhver sem þakkaði okkur fyrir daginn með stjörnustimpilinn á lofti. Við þekkjum öll frægustu netvangana eins og Airbnb og Uber. Sá síðarnefndi hefur nú víkkað út starfsemi sína í Bandaríkjunum og býður upp á Uber Works sem er snjallforrit þar sem fyrirtæki og vinnuafl geta auðveldlega leitað að vinnu eða vinnukrafti í tiltekin afmörkuð verkefni. Airbnb hefur líka gert sig gildandi sem vinnumiðlari og hafa upplifanir (Airbnb Experience) notið vinsælda. Það er enda auðvelt að markaðssetja sérþekkingu á netvöngum og talið er að í Bandaríkjunum muni þeim sem vinna sjálfstætt og nýta sér netvanga til þess að skapa sér vinnu fjölga það hratt að þeir verði um 40 milljónir strax á næsta ári.

Eftirlitslausar atvinnuveitur á Facebook?

Í síðasta mánuði gafst undirritaðri kostur á að kynna sér hvað stéttarfélög tveggja ólíkra landa, Bretlands og Danmerkur, eru að gera til þess að mæta því fólki sem kýs eða er knúið til að starfa sjálfstætt og/eða á eigin vegum – sumir í gegnum netvanga. Sjálfstætt starfandi eru nú fleiri en starfsmenn hins opinbera kerfis í Bretlandi en breytingin er mun skemmra á veg komin í Danmörku sem og á hinum Norðurlöndunum. Þar er þróunin hægari og rafrænar vinnuveitur enn jaðarfyrirbæri og mælast sem hlutfall af vinnumarkaði á bilinu 0,3-2,5%. Enn sem komið er sækja fáir lífsviðurværi sitt einvörðungu í gegnum netvanga á Norðurlöndunum.

En stéttarfélög eru á varðbergi, réttindi sem tilheyra hinu hefðbundna ráðningarsambandi eru ekki sjálfgefin þegar rætt er um sjálfstætt starfandi eða þá sem vinna með því að krækja sér í verkefni frá degi til dags. Það getur verið erfitt að viðhalda réttindum í veikinda- og/eða orlofssjóðum þegar tekjur eru ótryggar og þú tilheyrir „gig“ hagkerfinu, sem í gríni og alvöru hefur einnig verið nefnt hark-hagkerfið. Vinnulöggjöf á Íslandi nær ekki nema að takmörkuðu leyti utan um þennan hóp og hver er síðan að spá í réttindi þeirra sem vinna að miklu eða mestu leyti í gegnum Facebook eða netvanga með ekkert formlegt utanumhald? Á Facebook-síðunni Vinna með litlum fyrirvara er að finna stóran hóp sem starfar með þeim hætti.

Hvernig geta stéttarfélög stutt við sjálfstætt starfandi?

Netvangar geta gagnast fólki í millibilsástandi á vinnumarkaði, fólki sem vill auka tekjur sínar tímabundið eða taka að sér aukavinnu. Þeir gagnast fólki sem hefur verið á vinnumarkaði, fólki með reynslu og sambönd mun betur en þeim sem hafa kannski aldrei fengið tækifæri til að sanna sig á vinnumarkaði og því eru þeir síður hjálplegir ungu fólki.

Hin dökka hlið netvanga er að þeir geta þýtt bakslag í réttindabaráttu enda er veruleiki þeirra landamæralaus, eftirlit lítið og eins og áður sagði nær vinnulöggjöfin illa utan um þetta form vinnusambands. Erfitt getur reynst að viðhalda samtakamætti, standa sameiginlega að kröfugerðum til launahækkana og einnig getur þróunin verið slæm m.t.t. starfsþróunar og endurmenntunar. Hver á að halda slíkum sjóðum uppi ef fáir vilja greiða í þá?

Ef rétt er á málum haldið er niðurstaða skýrslunnar um netvanga, sem unnin var af bandalögum háskólamanna á Norðurlöndum, sú að þeir geti haft jákvæð áhrif á framleiðni og hagvöxt en áskoranirnar eru klárlega þær að verja þarf vissa hópa gegn undirboðum.

Í stjörnugjafadrifnum heimi er því miður hætta á að einhverjir verði undir og þá þurfa stéttarfélög að vera tilbúin til þess að koma til hjálpar. Þótt netvangar séu tækifæri fyrir þá sem sjá stjörnur á himni og möguleikana í að nýta þekkingu sína sem mest og best er hin hliðin á teningnum sú að við erum öll ólík og ekki víst að það að fá umsögn og stjörnur henti öllum.