• Thorunn

Lýst er eftir metnaði

Áramótagrein Þórunnar Sveinbjarnardóttur, formanns BHM, sem birtist í Kjarnanum 26. desember 2017

2.1.2018

Í samfélagi sem hreykir sér reglulega af lífsgæðum og jafnrétti á erlendri grundu er óþægilega grunnt á fordómum og skilningsleysi í garð háskólamenntunar og samfélagslegs gildis hennar. Þetta viðhorf endurspeglast í almennu tali um að bókvitið verði ekki í askana látið, eins og sagt var í eina tíð, þótt það sé orðað með öðrum hætti í dag. Ekkert skortir þó á nýjungagirni landsmanna þegar kemur að nýjustu tækni; snjalltæki eru í vasa hvers manns og við erum sítengd við fréttir af fólki um allan heim. Ég velti því stundum fyrir mér hvers vegna svona margir Íslendingar eigi erfitt með að tengja framfarir í upplýsingatækni og heilbrigðisþjónustu, svo að tvö nærtæk dæmi séu nefnd, við menntunina og nýsköpunina sem að baki býr. Framfarir á þessum sviðum verða ekki í tómarúmi. Þær eru afsprengi fjárfestingar í menntun og rannsóknum á háskólastigi sem skilar sér margfalt til samfélagsins þegar upp er staðið. Það er eitt af meginhlutverkum BHM að vekja athygli stjórnmálamanna og almennings á þessum mikilvægu staðreyndum og þrýsta á um stefnubreytingar í rétta átt. 

Íslenskt samfélag hefur náð að koma undir sig fótunum í kjölfar hrunsins í efnahagslegum skilningi. Vísitölur ríkisfjármála bera þess vitni. Sumt má flokkast til heppni, eins og ofurvöxtur ferðaþjónustunnar sl. 5 ár, annað má rekja til farsælla ákvarðana stjórnvalda. Ekki það, að við höfum heimsklassa vöru að selja, íslenska náttúru, og góðan grunn að byggja á, velferðarkerfi grundvallað á hugsjóninni um þjónustu án tillits til efnahags. En vöxtur ferðaþjónustunnar virðist enn eitt dæmið um auðlindanýtingu sem gæti endað með rányrkju ef við förum ekki varlega og herum langtímaáætlanir um nýtingu hennar. Það er skemmtilegt að vera heppinn en áætlanir um uppbyggingu menntunar og atvinnu hér á landi til framtíðar mega ekki byggjast á drullureddi ngum og voninni um skammtímagróða. Hitt er, að velferðarkerfið hefur færst hættulega langt frá uppruna sínum. Það sjáum við m.a. í aðbúnaði og kjörum háskólamenntaðra stétta innan þess. 

BHM lýsir eftir pólitískum metnaði ríkisstjórnar og Alþingis á sviði háskólamenntunar og atvinnumála. Hvert vilja kjörnir fulltrúar stefna? Og hvernig ætla þau að komast þangað? Það er löngu tímabært að taka hringborðssamtalið um langtímastefnumörkun á þessum sviðum. BHM mun ekki liggja á liði sínu í þeim efnum. Við höfum haft forgöngu um að setja áhrif fjórðu iðnbyltingarinnar á vinnumarkað háskólamanna á dagskrá, t.d. með ráðstefnunni Misstu ekki af framtíðinni, og höfum margt til málanna að leggja í slíkri stefnumótun. Að mínu viti er kominn tími til að ræða um stóra samhengið og ákveð hvert við viljum stefna sem samfélag á næsta aldarfjórðungi.

Að lokum verður ekki hjá því komist að ræða stöðuna á vinnumarkaði í árslok.  Ríkisstarfsmenn innan 17 aðildarfélaga BHM eru með lausa samninga hægt hefur þokast við samningaborðið. Vonandi færist aukinn kraftur í viðræðurnar með hækkandi sól. Ríkisvaldið virðist eiga erfitt með að valda tvískiptu hlutverki sínu sem stærsti vinnuveitandi á Íslandi og forsjáraðili ríkisfjármála. Breytinga er þörf. Kjara- og mannauðssýsla ríkisins starfar enn samkvæmt kerfi sem komið var á fyrir aldarfjórðungi undir heitinu nýskipan í ríkisrekstri. Það byggist á dreifstýringu launasetningar í stofnanasamningum. Sums staðar virkar þetta kerfi sæmilega, en annars staðar virðist það botnfrosið. Annars vegar vegna óhæfra stjórnenda, hins vegar vegna viðvarandi fjásveltis og niðurskurðar. Í þessum efnum kallar BHM líka eftir framsýni ogmetnaði af hálfu stjórnvalda. Samræming lífeyriskerfa á opinberum og almennum vinnumarkaði krefst þess beinlínis að ríkið geri miklu betur svo að það sé samkeppnishæft um gott starfsfólk við einkageirann. Ef ekki, mun unga fólkið ekki sjá hagsmunum sínum borgið og faglegum metnaði fullnægt á opinberum vinnumarkaði. 

Það er von mín að ný ríkisstjórn og þingmenn allir svari kalli BHM um langtímastefnumótun og framsýni á vinnumarkaði. Til að svo megi verða þurfa allir að hefja sig upp yfir dægurþrætur og leggja skammtímalausnir til hliðar. Það krefst framsýni, umburðarlyndis og úthalds, en við skuldum komandi kynslóðum að gera okkar besta og megum hreinlega ekki skorast undan. 

Fyrir hönd Bandalags háskólamanna færi ég lesendum óskir um gæfuríkt nýtt ár!