Chat with us, powered by LiveChat
  • Friðrik Jónsson, formaður BHM.
    fridrikjonsson
    Friðrik Jónsson, formaður bhm.

Nýársheit verkalýðshreyfingar, atvinnulífs og stjórnvalda

Grein formanns BHM í Morgunblaðinu 31. desember

31.12.2021

Kjarasamningar byrja að losna á síðari hluta nýs árs og verkefnið verður sem fyrr kunnuglegt – að stuðla að áframhaldandi stöðugleika og auka kaupmátt. Í því ljósi, hver ættu nýársheit aðila vinnumarkaðar að vera fyrir árið 2022? Hvernig sláum við bjartari tón inn í nýtt ár?

Nýársheit verkalýðshreyfingar: Að gleyma ekki bitrum lærdómi sögunnar

„Ísland kemst í heimsmetahóp!“ prýddi forsíður blaðanna í apríl 1983 en verðbólgan hafði þá rofið 100% múrinn á ársgrundvelli. Mín kynslóð sem þá tók út unglinginn og steig sín fyrstu skref á vinnumarkaði fékk þennan óstöðugleika beint í æð. Verðlag sextánfaldaðist á áratugnum og stór verkföll 1984, 1987 og 1989 settu þjóðfélagið í uppnám. Höfum jafnframt í huga að kaupmáttur lágmarksdagvinnutaxta var hærri í seinni heimsstyrjöldinni en hann var árið 1994.

Um 32 ár eru síðan aðilar vinnumarkaðar settu sér það markmið að rjúfa vítahring víxlverkunar gengisfellinga, verðbólgu og launahækkana. Stuðla skyldi að stöðugri og sjálfbærri hækkun kaupmáttar, auknum stöðugleika verðlags og lægra vaxtastigi. Einhverjir eiga það til að tala niður þjóðarsáttasamningana, en staðreyndin er sú að frá gerð þeirra hefur kaupmáttur launa tvöfaldast. Aukið traust milli verkalýðshreyfingar, stjórnvalda og atvinnurekenda, sameiginlegur skilningur á hagrænum togkröftum og bitur reynsla sögunnar skiptu öllu máli.

Rúmum 30 árum síðar eru meðallaun á Íslandi, leiðrétt fyrir kaupmætti, með þeim hæstu í heimi og kaupmáttur þeirra lægst launuðu hefur mest aukist um tæplega 30% á síðustu tveimur árum, mismikið eftir mörkuðum. Það er stórkostlegur árangur! Þó eru til þau sem leiða hjá sér slíka tölfræði og gefa lítið fyrir lærdóm sögunnar. Þegar hefur verið stigið fram og sagt að aukin verðbólga kalli á auknar launakröfur í komandi kjarasamningum. Sumir hafa lýst þeirri skoðun sinni að hagsmunir launafólks og atvinnurekenda séu einatt ósamrýmanlegir og sögur heyrast af því að verkalýðshreyfingin og fulltrúar atvinnulífs talist ekki við. Vofur vantrausts níunda áratugarins virðast komnar á kreik á ný. Nýársheit verkalýðshreyfingarinnar ætti að vera að gera sitt til að snúa af þessari braut, fyrir þau sem við vinnum fyrir, íslenskt launafólk.

Nýársheit stjórnvalda og atvinnurekenda: Að horfast í augu við hið augljósa

Sé litið til tímabils nýrrar fjármálastefnu 2022-2026 er höggið á opinber fjármál eftir heimsfaraldur augljóst. Gert er ráð fyrir að skuldir hins opinbera hafi vaxið um tvo þriðju þegar áhrif heimsfaraldurs eru gengin yfir og hafa stjórnvöld boðað viðbrögð svo skuldasöfnunin haldi ekki áfram. Núverandi halli á annars vegar rætur að rekja til faraldursins og hins vegar til ráðstafana í opinberum fjármálum fyrir faraldur. Tekjuhliðin hafði t.a.m. verið veikt til langframa fyrir faraldurinn með breytingum á tekjuskattskerfinu og nýlega hefur frítekjumark fjármagnstekjuskatts verið hækkað sem og skattfrelsismark erfðafjárskatts. Það er þó huggun harmi gegn að ríkissjóður hefur getað fjármagnað sig á hagstæðari kjörum en áður og erlendar skuldir hafa dregist verulega saman.

Stjórnvöld hafa boðað að þau vilji leysa afkomuvandann með því að vaxa til velsældar. Það þýðir að eftir því sem efnahagslífið jafnar sig eftir faraldurinn aukast tekjur með auknum umsvifum, en um leið þarf að stilla í hóf aukningu útgjalda. Að vinna bug á hallarekstrinum mun því að óbreyttu kalla á aðhald, hugsanlega með niðurskurði í almannaþjónustu. Það verður erfitt verkefni, ekki síst fyrir þá sök að öldrun þjóðarinnar kallar á aukningu í opinberum útgjöldum. Stjórnvöld og atvinnulíf verða að horfast í augu við hið augljósa: fjármagn á Íslandi býr við mun lægri skattlagningu en launafólk og landið er ríkt af auðlindum. Þangað verður að sækja styrkingu tekjuöflunarinnar því það verður ekki gert með frekari skattlagningu launafólks. Þess vegna m.a. er ljóst að verkalýðshreyfingin verður að hafa aðkomu að samtalinu um hvernig fjármál hins opinbera verða rétt af með sanngjörnum hætti.

Nýársheit okkar allra: Að sóa ekki tíma og fjármunum

Ómark­viss vinnu­brögð kosta íslenskt launafólk tugi milljarða í hverri kjarasamningslotu. BHM styður heilshugar markmið og ádrepur ríkissáttasemjara um að allra leiða verði leitað til að samningar taki við af samningum. Á Norðurlöndunum er almenna reglan sú að nýir kjarasamningar taka gildi áður en eldri samningar renna sitt skeið en á Íslandi eru aðeins örfá dæmi þess að samningar taki við af samningum.

Við eigum að vera stolt af þeim árangri sem verkalýðshreyfingin, atvinnurekendur og stjórnvöld hafa náð í að bæta lífskjör launafólks á Íslandi síðustu áratugi. Á því ber að byggja - afturhvarf til átakamenningar fyrri tíma væri glapræði. Ég ber þá von að senn renni upp tími aukinnar bjartsýni og aukins trausts á íslenskum vinnumarkaði - megi árið 2022 marka upphafið á þeirri vegferð og vörðun leiðar að nýrri þjóðarsátt. Gleðilegt nýtt ár 2022.