• Erna_portrait

Óheilbrigt vinnuumhverfi er ógn við geðheilsu

Grein Ernu Guðmundsdóttur, framkvæmdastjóra BHM, á Vísi 10. október 2017 í tilefni af Alþjóðlega geðheilbrigðisdeginum

9.10.2017

Árlega efna félagasamtök og stofnanir sem starfa að geðheilbrigðismálum til sérstakrar dagskrár 10. október undir merkjum Alþjóðlega geðheilbrigðisdagsins (e. World Mental Health Day). Markmiðið er að auka vitund almennings um geðræn vandamál, mikilvægi geðræktar og forvarna á þessu sviði. Í ár er þema dagsins „Geðheilsa á vinnustað“.

Rannsóknir sýna að álag í starfi og vinnuumhverfi getur haft mikil áhrif á andlega líðan fólks og geðheilbrigði. Vinnuveitendur og stjórnendur sem leggja áherslu á heilbrigt vinnuumhverfi stuðla ekki einungis að vellíðan starfsfólks heldur einnig auknum afköstum og árangri. Á hinn bóginn getur óheilbrigt vinnuumhverfi leitt til margvíslegra kvilla eða jafnvel alvarlegra geðrænna vandamála meðal starfsfólks. Slík vandamál koma meðal annars fram í tíðum fjarvistum og minnkandi afköstum.

Víða á vinnustöðum er starfsfólk þjakað af kvíða eða þunglyndi vegna óhóflegs álags eða óheilnæmra vinnuaðstæðna. Í þessu sambandi má nefna að yfir 12.000 manns hafa leitað til VIRK starfsendurhæfingarsjóðs frá stofnun sjóðsins árið 2010. Þar af búa 70% við skerta starfsgetu vegna andlegra sjúkdóma og/eða stoðkerfisvandamála sem rekja má til of mikils álags eða annarra neikvæðra þátta í vinnuumhverfinu. Margir bera skýr einkenni kulnunar í starfi.

Atvinnurekendur gangist við ábyrgð sinni

Ástæða er til að hafa miklar áhyggjur af þessari stöðu. Mikilvægt er að atvinnurekendur og stéttarfélög hugi að forvörnum á vinnustöðum í því skyni að fyrirbyggja kulnun starfsmanna. Þær geta t.d. falist í fræðslu fyrir stjórnendur og starfsmenn um orsakir kulnunar og leiðir til að koma í veg fyrir að hana. Stjórnendur þurfa að fá þjálfun í því að greina einkennin og vita hvernig eigi að bregðast við ef þau koma fram hjá starfsfólki. Með markvissum aðferðum má draga úr líkum á því að starfsfólk veikist í vinnunni, verði óvinnufært og þurfi að leita á náðir heilbrigðiskerfisins og/eða VIRK starfsendurhæfingarsjóðs. Fyrst og síðast verða þó atvinnurekendur að gangast við ábyrgð sinni, gæta að heilsu og velferð starfsmanna, ofbjóða þeim ekki með kröfum og álagi, búa þeim heilbrigðar vinnuaðstæður og virða eðlileg mörk í samskiptum við þá. Hér hafa stéttarfélög og samtök þeirra einnig skýrt hlutverk við að gæta hagsmuna félagsmanna sinna.

BHM hvetur félagsmenn aðildarfélaga til að taka þátt í dagskrá Alþjóðlega geðheilbrigðisdagsins 10. október nk. Hana má nálgast á vefslóðinni www.10okt.com.