• Fridrik-Jonsson-BHM-5

Ræða Friðriks Jónssonar, formanns BHM, á aðalfundi bandalagsins 27. maí 2021

27.5.2021

Ágætu félagar í BHM

Ég vil byrja á að þakka fyrir það mikla traust sem mér var sýnt í nýafstöðnu formannskjöri. Ég vil einnig þakka Maríönnu fyrir glímuna sem var bæði málefnaleg og heiðarleg. Ég er viss um að við höfum bæði notið góðs af því samtali sem við höfum átt saman og hvort í sínu lagi við fulltrúa aðildarfélaganna undanfarnar 14 vikur. Aðalatriðið er þó að í framhaldinu njóti BHM góðs af þeirri miklu umræðu sem farið hefur fram um stöðu og hlutverk bandalagsins. Ég mun leggja mig allan fram til þess að svo muni verða.

Niðurstaða kjörsins speglar skýran vilja til umbóta og framfara. Með fulltingi ykkar vil ég strax hefjast handa við að bæta, breyta og byggja bandalagið upp þannig að það geti betur þjónað okkur í þeim fjölbreyttu verkefnum sem framundan eru.

Kjörtímabil formanns varir tvö ár. Ég set mér það markmið að vel innan þess tíma, og aldrei seinna en innan næstu tuttugu mánaða, verði orðið ljóst hvort nýr formaður valdi verkefnum sínum og geti í góðu samstarfi við félaga sína – ykkur – leitt bandalagið með markvissum hætti inn í nýja tíma.

Í fyrsta lagi þurfum við að hefja vinnu við endurmótun á innra skipulagi BHM. Þar vil ég leita til utanaðkomandi sérfræðinga til þess að undirbúa, greina og gera tillögur um valkosti til umbóta, sem verði ræddar og afgreiddar á okkar innri félagspólitíska vettvangi.

Hér er um að ræða almennt verklag innan bandalagsins, verka- og hlutverkaskiptingu á milli formannaráðs, stjórnar og skrifstofu BHM, verkaskiptingu starfsfólks, greiningu á starfsmannaþörf og þess háttar. Markmiðið er að hægt verði að leggja fram tillögur til umræðu og afgreiðslu strax í haust.

Og það er í fleiri horn að líta. Við þurfum að taka lög bandalagsins til ítarlegrar skoðunar með það að markmiði að auka sveigjanleika BHM og aðdráttarafl. Það er líka orðið tímabært að skoða fjármögnun bandalagsins, húsnæðismál þess og fleira.

Ég set mér það markmið að á næsta aðalfundi að ári, getum við afgreitt breytingar og aðlögun sem tryggi að bandalagið geti betur og með öflugri hætti þjónað ykkur og aðildarfélögunum í starfinu á komandi árum.

Samhliða munum við vinna ötullega að ytra starfi bandalagsins.

Það eru fjórir mánuðir í alþingiskosningar og við munum hefja samtal við fulltrúa flokkanna í aðdraganda þeirra um þau mál og hagsmuni sem varða stöðu háskólamenntaðra á íslenskum vinnumarkaði. Samtal sem við munum síðan fylgja eftir í kjölfar kosninga við nýja ríkisstjórn og jafnt og þétt í aðdraganda nýrra kjarasamninga.

Að sama skapi tökum við frumkvæði í samtali við aðra aðila vinnumarkaðarins, hvort sem það eru önnur heildarsamtök launafólks, fulltrúar vinnuveitenda eða sveitarfélögin.

Við eigum strax að hefjast handa við að þrýsta á um opið samtal um bætt samskipti og vinnubrögð á íslenskum vinnumarkaði til næstu framtíðar með fagmennsku, gagnvæma virðingu, jafnrétti og réttlæti að leiðarljósi.

Við munum efna til stefnumótunarþings í haust til undirbúnings fyrir næstu kjarasamninga. Þar þurfum við að horfa á viðfangsefnið í víðu samhengi. Kaupliðurinn sjálfur er auðvitað mikilvægur en það eru fleiri atriði sem skipta okkur jafn miklu – og jafnvel meira máli – en hefðbundið samtal um kaup og kjör.

Lífeyrismálin, skattamálin, námslánin og orlofsmálin eru þar á meðal og yfirhöfuð allt það sem skiptir máli í kviku efnahagsumhverfi, þar sem vinnumarkaður mun taka miklum breytingum á næstu árum.

Við eigum að vera leiðandi í því samtali.

Um nýsköpun og nútímavæðingu, öfluga varðstöðu um lágmarksréttindi, virðingu fyrir menntun og svigrúmi fyrir verðmætasköpun þess hugvits og þekkingar sem félagsmenn okkar búa svo ríkulega yfir.

Núverandi heildarkjarasamningar renna út í mars 2023 eða eftir 22 mánuði. Við eigum strax að hefja undirbúningsstarfið með kjara- og réttindanefnd í broddi fylkingar.

Ég stend við það sem ég hef sagt á fundum okkar síðustu vikur að markmið mitt er að næstu samningum verði lokið áður en þeir renna út – helst innan þeirra 20 mánaða sem ég marka hér fyrir okkar umbótastarf. Það væri allra hagur. Launafólks, atvinnurekenda og hins opinbera.

Ég endurtek að fagmennska, gagnkvæm virðing, jafnrétti og réttlæti verði þar leiðarljós. Vandséð er hvers vegna viðsemjendur okkar ættu að standa gegn því.

----

Sem nýr formaður BHM - sem manneskja - vil ég lýsa yfir stuðningi við þær konur sem hafa deilt reynslu sinni undir merkjum #MeToo og einnig þær sem enn bera reynslu sína í hljóði.

Þið eruð ekki einar, ég er viss um að aðildarfélög og félagsfólk BHM stendur með ykkur, öll sem eitt.

Stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins verða að grípa umsvifalaust til aðgerða og innleiða skýra verkferla til að koma í veg fyrir ofbeldi og áreitni á vinnumarkaði og styðja þolendur í leit að réttlæti og aðstoð.

Aðgerðahópur Velferðarráðuneytisins vegna MeToo, þar sem BHM hefur átt fulltrúa, er að fara að skila sínum tillögum um aðgerðir til fræðslu og forvarna. Það verður lykilatriði að þeim tillögum fylgi fólk og fjármagn til að hrinda þeim í framkvæmd. Undir minni formennsku mun BHM leggja þung lóð á þær vogarskálar.

Bíðum ekki eftir næstu bylgju frásagna.

Leggjum okkur öll fram við að uppræta ofbeldi, áreitni og einelti hvar sem er og hvenær sem er. Sérstaklega við sem njótum forréttinda. Felum okkur ekki á bakvið þau, heldur göngumst við þeim og beitum þeim þá frekar til góðs. Styðjum, virðum og stöndum með.

----

Kæru félagar,

Við eigum að vera ófeimin við að horfa út fyrir okkar eigin ramma. Út fyrir Borgartúnið, út til annarra hreyfinga launafólks – hér heima og erlendis. Við eigum að vera ófeimin við að bera okkur saman við það besta sem gerist annars staðar og hafa metnað til þess að sækjast eftir því að verða þar á meðal.

Ég hef ríkan metnað til þess að styrkja sess Bandalags háskólamanna í umræðu og þróun á íslenskum vinnumarkaði og ég hlakka til vinnunnar með ykkur að þeim verkefnum sem ég hef einsett mér að hrinda í framkvæmd innan næstu 20 mánaða. Þannig mun okkur gefast góður tími fyrir lok kjörtímabilsins til þess að vega og meta hvaða árangri við höfum náð, hver næstu skref okkar eigi síðan að verða og hver eigi að leiða þá vegferð.

Ég vil að lokum þakka Ragnari fyrir vandaða fundarstjórn, Elísu og Gauta fyrir fundarritun, Þórunni fyrir hennar störf fyrir bandalagið undanfarin 6 ár og Jóhanni fyrir að standa vaktina síðustu mánuðina af mikilli kostgæfni.

Stjórnum og starfsfólki bandalagsins og aðildarfélaga þakka ég þeirra vinnu og ykkur ágætu aðalfundarfulltrúar þakka ég aftur stuðninginn og traustið.

Afgerandi kosningaúrslit senda skýr skilboð um sterkt umboð til nauðsynlegra umbóta. Ég hlakka til þeirra verkefna sem bíða okkar.

Fundi er slitið.

[talað orð gildir]

Upptaka af ræðu FJ á aðalfundi 2021