• bhm_harpa_23112017-47

Skýr mörk vinnu og einkalífs

Grein Þórunnar Sveinbjarnardóttur, formanns BHM, í Fréttablaðinu 22. júní 2020

23.6.2020

Á mörgum þekkingarvinnustöðum hefur starfsfólk umtalsverðan sveigjanleika hvað varðar viðveru og vinnutíma. Til dæmis getur fólk valið að mæta í vinnu og hætta á mismunandi tímum og að vinna heiman frá sér að einhverju leyti. Framfarir í samskiptatækni á undanförnum árum hafa skapað forsendur fyrir slíkum sveigjanleika og líklega hefur hann almennt aukist upp á síðkastið vegna kórónuveirufaraldursins. Þessi þróun er auðvitað af hinu góða svo lengi sem mörkin milli vinnu og einkalífs eru skýr. Óskýr mörk valda streitu og geta ógnað heilsu fólks, eins og fjölmörg dæmi sanna. Það er nefnilega ekki hollt að vera alltaf í vinnunni.

Vakning orðið í samfélaginu

Bandalag háskólamanna hefur fylgst grannt með þróuninni og lýst áhyggjum af áhrifum sítengingar starfsmanna á lengd vinnutíma og álag í starfi. Svipað gildir um ýmis önnur stéttarfélög, samtök og stofnanir. Segja má að á síðustu árum hafi orðið vakning í samfélaginu um mikilvægi hóflegs vinnutíma og skýrra marka milli vinnu og einkalífs. Þetta endurspeglast m.a. í viðhorfskönnunum sem BHM gerir reglulega meðal félagsmanna aðildarfélaga. Árið 2017 sögðust um 57% svarenda í slíkri könnun vera með snjalltæki frá vinnuveitanda sínum til afnota. Um 55% þeirra sögðust oft fá skilaboð í snjalltækið vegna vinnunnar utan hefðbundins vinnutíma, 24% stundum, 16% sjaldan og 6% aldrei. Í febrúar á þessu ári sögðust ívið fleiri svarendur vera með snjalltæki frá vinnuveitanda sínum eða 64% en mun færri sögðust oft fá skilaboð vegna vinnunnar utan hefðbundins vinnutíma eða 33%. Um 28% sögðust stundum fá slík skilaboð í snjalltækið, 22% sjaldan og 17% aldrei.

Viðverustefna er skref í rétta átt

Þessar niðurstöður benda til þess að vinnuveitendur virði nú almennt betur mörkin milli vinnu og einkalífs starfsmanna en fyrir nokkrum árum. Það er fagnaðarefni en mikilvægt er að þessi mörk verði formbundin. Ákvæði í nýgerðum kjarasamningum BHM-félaga við ríkið skyldar stofnanir til að setja sér viðverustefnu. Það er skref í rétta átt.