• formenn
    Frá vinstri: Sture Fjäder (Akava, Finnlandi), Göran Arrius (Saco, Svíþjóð), Þórunn Sveinbjarnardóttir (BHM, Ísland), Lars Qvistgaad (AC, Danmörku) og Kari Sollien (Akademikerne, Noregi).

Stjórnvöld þurfa að taka hættuna á „kórónu-kynslóð“ ungs og atvinnulauss fólks alvarlega

Sameiginleg grein formanna heildarsamtaka háskólamenntaðra á Norðurlöndum

29.9.2020

Þegar kórónukrísan hófst fyrir alvöru umturnaðist líf milljóna manna um allan heim, einnig hér á Norðurlöndum. Heilbrigðiskrísunni fylgir efnahagskreppa. Á einni nóttu fórum við úr því að vera með vaxandi vinnumarkað og lítið atvinnuleysi yfir í vinnumarkað sem einkennist af uppsögnum og atvinnuleysi.

Fyrri kreppur hafa sýnt að ungt fólk verður verst úti og síðasta efnahagslægð hafði í för með sér gríðarlegt atvinnuleysi meðal ungs fólks um alla Evrópu. Nú bítur kreppan á nýjan leik og fjöldi ungs fólks sem lauk námi í sumar kemur út á vinnumarkað sem er í samdrætti. Ekki er nóg með að störf séu af skornum skammti heldur lenda þau sem eru nýútskrifuð oft aftarlega í röðinni þegar þúsundir atvinnulausra sem búa að meiri reynslu sækja um sömu störf.

Við sjáum sömu tilhneigingu alls staðar á Norðurlöndum. Leiðin að fyrsta starfinu lengist og atvinnuleysi eykst á meðal ungs fólks. Það er þróun sem við verðum að taka alvarlega ef við viljum ekki sitja uppi með kórónu-kynslóð af ungu og atvinnulausu fólki sem á erfitt með að komast inn á vinnumarkaðinn og er í hættu á að þurfa að búa við afleiðingar þess árum saman.

Málið snýst ekki lengur um að stytta leiðina að fyrsta starfinu heldur að koma í veg fyrir að heil kynslóð nýútskrifaðra verði atvinnulaus til lengri tíma. Eigi kreppan ekki að skjóta rótum verðum við að grípa til aðgerða til að auðvelda nýútskrifuðu fólki að komast inn á vinnumarkaðinn.

Við skorum því á forystufólk norrænu ríkisstjórnanna að bregðast við. Taka þarf hættuna á kórónu-kynslóð ungs og atvinnulauss fólks alvarlega. Það eiga bæði þau nýútskrifuðu, fyrirtæki og samfélagið í heild inni hjá okkur.

Göran Arrius, formaður Saco, Svíþjóð
Kari Sollien, formaður Akademikerne, Noregi
Lars Qvistgaard, formaður AC, Danmörku
Sture Fjäder, formaður Akava, Finnlandi
Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM