• Erna Guðmundsdóttir
    Erna

Það er brjálað að gera

Grein Ernu Guðmundsdóttur, framkvæmdastjóra BHM, í Morgunblaðinu 5. apríl 2019

5.4.2019

Nýlega losnuðu kjarasamningar 21 aðildarfélags BHM við ríki og sveitarfélög. Aðildarfélögin munu í væntanlegum viðræðum við þessa aðila gera kröfu um hækkað framlag til Styrktarsjóðs bandalagsins. Hlutverk sjóðsins er m.a. að styrkja sjóðfélaga og koma til móts við tekjutap vegna ólaunaðrar fjarveru frá vinnu sökum veikinda og slysa, styðja forvarnir o.fl. Sjóðurinn greiðir sjóðfélögum sjúkradagpeninga þegar réttur til launa í veikindum er fullnýttur hjá vinnuveitanda. Umsóknum um sjúkradagpeninga hefur fjölgað gríðarlega á undanförnum misserum. Það er mikið áhyggjuefni. Vegna þessa neyddist sjóðurinn nýlega til þess að skerða heimildir til og fjárhæðir ýmissa styrkja.

Hækka verður iðgjald í Styrktarsjóð BHM

Því miður bendir ekkert til þess að álag á Styrktarsjóð BHM fari minnkandi, þvert á móti. Þessi þróun helst í hendur við mikla fjölgun félagsmanna aðildarfélaga BHM sem leita til VIRK starfsendurhæfingarsjóðs. Styrktarsjóður BHM þarf að vera í stakk búinn að styrkja forvarnir sem og að greiða út sjúkradagpeninga þegar þörf krefur. Ljóst er að hann getur ekki sinnt hlutverki sínu nema iðgjald verði hækkað.

Sumir opinberir vinnuveitendur eru tregir að taka á móti starfsmanni aftur til vinnu eftir veikindafjarveru nema fyrir liggi staðfesting á því að veikindi hans taki sig ekki upp aftur. Er þetta tengt túlkun á ákvæðum kjarasamninga um ávinnslu veikindaréttar í kjölfar leyfis. Frá sjónarhóli starfsmannsins er þetta algjörlega óviðunandi staða og undirstrikar þörfina á því að krafa aðildarfélaga BHM um hækkun iðgjalds í Styrktarsjóðs verði tekin til greina.

Skattfrelsi styrkja

Í yfirlýsingu sem ríkisstjórn Íslands gaf út í febrúar 2008 sagði m.a. orðrétt: „Ríkisstjórnin mun í tengslum við þetta beita sér fyrir lagabreytingum sem tryggi að greiðslur úr Endurhæfingarsjóði, sjúkra- og fræðslusjóðum stéttarfélaga sem ganga til greiðslu kostnaðar við endurhæfingu, heilbrigðisþjónustu og tiltekna þjónustu fagaðila ásamt starfsmenntun og fullorðinsfræðslunámskeiðum sem staðfest hafa verið af menntamálaráðuneytinu teljist ekki til skattskyldra tekna.“ BHM skorar á núverandi ríkisstjórn að efna þetta fyrirheit þannig að styrkir úr Styrktarsjóði BHM og Sjúkrasjóði BHM verði skattfrjálsir.