• bhm_adalfundur_2019_a-16

Það sem þarf að gera næst

Grein Þórunnar Sveinbjarnardóttur, formanns BHM, í Fréttablaðinu 19. ágúst 2020

19.8.2020

Öllum er orðið ljóst að glíman við kórónuveirufaraldurinn mun taka misseri og ár en ekki mánuði. Aðgerðir stjórnvalda vegna stöðunnar á vinnumarkaði hafa hingað til miðað að því að fást við bráðavanda vegna hruns ferðaþjónustunnar og afleiðingar þess fyrir samfélagið allt. Það er skiljanlegt.

Nú er komið að næsta eðlilega skrefi við þessar aðstæður, þ.e. að hækka upphæðir atvinnuleysisbóta og lengja tímann sem þær eru tekjutengdar úr þremur í sex mánuði. Í dag eru 4.500 manns með háskólamenntun án atvinnu. Útreikningar BHM sýna að tekjuskerðing háskólamenntaðs fólks við það að missa vinnuna og fara á atvinnuleysisbætur getur numið 55% á ársgrundvelli.

Einnig er komið að því að stjórnvöld grípi til sértækra ráðstafana til að mæta langtímaáhrifum faraldursins á tiltekna geira atvinnulífsins. Þar vil ég sérstaklega nefna sviðslista- og skemmtanageirann. Án leiksýninga og tónleikahalds er lífsviðurværi þúsunda karla og kvenna í uppnámi. Flest í þessum hópi eru í harkinu frá mánuði til mánaðar með allri óvissunni sem því fylgir. Atvinnuleysistryggingakerfið þarf að koma betur til móts við þau sem vinna í blönduðu ráðningarformi, t.d. í tímavinnu við kennslu og einnig í harkinu, s.s. við tónleikahald. Nauðsynlegt er að aðlaga reglur Vinnumálastofnunar að daglegum raunveruleika þessara stétta á vinnumarkaði.

Áform um að opna möguleika fólks til frekara náms eru góð en hafa verður í huga að núgildandi reglur atvinnuleysistrygginga leyfa ekki fullt háskólanám við þessar aðstæður. Því þarf að breyta.

Það hefur heyrst í opinberri umræðu að upphæðir atvinnuleysistrygginga megi ekki vera of háar því að þá letji þær fólk til atvinnuleitar. Ég hef engan hitt sem langar að vera atvinnulaus og efast um að þessi röksemdafærsla haldi við núverandi efnahagsaðstæður. Þær eru sannarlega fordæmalausar og aðgerðir stjórnvalda verða að taka mið af því.