• Þórunn Sveinbjarnardóttir
    Thorunn2

Tímamótatillögur um LÍN

Grein Þórunnar Sveinbjarnardóttur, formanns BHM, í Fréttablaðinu 19. nóvember 2019

19.11.2019

„Bandalag háskólamanna hefur um árabil barist fyrir því að dregið verði úr endurgreiðslubyrði námslána og að ábyrgðarmannakerfið verði afnumið að fullu. Nú hefur starfshópur sem forsætisráðherra skipaði í sumarbyrjun lagt til að þetta tvennt verði gert, auk þess sem veittur verði meiri afsláttur við uppgreiðslu námslána en nú er.“

Þessar tillögur marka tímamót ekki síst vegna þess að samstaða náðist um þær í hópnum, sem í sátu fulltrúar frá þremur ráðuneytum auk fulltrúa BHM og iðnaðarmannafélaganna.

Afborganir lækka en lánstími óbreyttur

Endurgreiðsla námslána er mörgum þung byrði enda fer jafnvirði tæplega einna mánaðarlegra ráðstöfunartekna á ári til þess að greiða af lánum. Það hefur því verið baráttumál BHM árum saman að ríkisvaldið komi til móts við greiðendur námslána.

Starfshópur forsætisráðherra leggur til að það hlutfall launa sem lántaki greiðir árlega af launum sínum í afborganir námslána lækki um 10%. Jafnframt leggur hópurinn til að vextir lækki úr 1% í 0,4%. Þetta mun hafa í för með sér að afborganir munu lækka án þess að lánstíminn lengist.

Ábyrgðarmannakerfið burt

Fyrir réttum 10 árum var hætt að gera kröfu um ábyrgðarmenn á námslánum. Eftir stóð að allir sem gengist höfðu í ábyrgðir á lánum fyrir árið 2009 voru enn ábyrgir og því ljóst að enn væri réttlætinu ekki fullnægt. Starfshópurinn leggur til að ábyrgðir á gömlu lánunum verði felldar niður með sömu skilyrðum og gilt hafa fyrir ný lán sl. áratug. Það verður ekki ofsögum sagt af ömurlegum afleiðingum þessa kerfis á liðnum áratugum fyrir fólk og fjölskyldur.

Þá leggur hópurinn til að lántakar sem vilja greiða inn á námslán umfram lögbundnar afborganir eða greiða þau upp að fullu skuli fá ríflegan afslátt.

Barátta BHM nýtist öðrum

Kjör á námslánum varða lífskjör mjög stórs hóps í samfélaginu. Hér er ekki einungis um að ræða félagsmenn BHM, sem eru rúmlega 14 þúsund talsins, heldur einnig þúsundir háskólamenntaðs fólks sem af einhverjum ástæðum standa utan bandalagsins. Áralöng barátta BHM og sá árangur sem hún hefur skilað kemur einnig þessu fólki til góða.

Nú er ekki annað að gera fyrir ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur en að hrinda tillögum starfshópsins í framkvæmd enda um mjög brýnt hagsmunamál að ræða fyrir tugþúsundir Íslendinga.