• Erna Guðmundsdóttir
    Erna_Gudmundsdottir

Verður starfið þitt til eftir tíu ár?

Grein Ernu Guðmundsdóttur, framkvæmdastjóra BHM, í Morgunblaðinu 16. nóvember 2017.

16.11.2017

Því er spáð að á næstu árum muni verða mikil breyting á lifnaðar- og atvinnuháttum okkar vegna stórstígra framfara í tækni og vísindum. Gervigreind og sjálfvirkni munu í vaxandi mæli setja svip sinn á allt samfélagið. Þessi þróun, sem gengur undir heitinu „fjórða iðnbyltingin“, er þegar hafin og mun væntanlega verða hraðari eftir því sem á líður. Mörg störf munu breytast eða hverfa en á sama tíma munu ný störf verða til. Fyrir fólk á vinnumarkaði þýðir þetta að það þarf stöðugt að vera reiðubúið að tileinka sér nýja þekkingu og færni ef það ætlar að viðhalda stöðu sinni.

Það er undir okkur komið hvernig við nýtum tækifærin sem fjórða iðnbyltingin felur í sér. Stéttarfélög, atvinnulífið, fræðasamfélagið og stjórnvöld þurfa að taka höndum saman um viðbrögð við þessum breytingum og móta sameiginlega stefnu um hvernig samfélagið getur aðlagast þeim. Í menntakerfinu og á vinnumarkaði þarf að greina stöðu og horfur til að hægt sé að koma til móts við kröfur nýrra tíma. Þetta snýst um að finna leiðir til að efla þá lykilfærni sem atvinnulíf framtíðarinnar kallar á.

Háskólamenntað fólk mun ekki fara varhluta af þessari þróun frekar en aðrir. Fjórða iðnbyltingin mun jafnvel hafa meiri áhrif á störf og vinnumarkað háskólamenntaðra sérfræðinga en ýmissa annarra hópa. En hvernig eiga háskólamenntaðir að búa sig undir þessar breytingar? Hvaða færni þurfa þeir að tileinka sér til að geta haldið í við þróunina? Hvernig á að endurskipuleggja menntakerfið þannig að það búi fólk sem best undir fjórðu iðnbyltinguna? Og hvernig getum við mótað árangursríka stefnu um vinnumarkað framtíðarinnar?

Þetta eru meðal þeirra spurninga sem leitað verður svara við á ráðstefnu BHM um fjórðu iðnbyltinguna og áhrif hennar á vinnumarkað háskólamenntaðra sem haldin verður 23. nóvember nk. í Hörpu. Yfirskrift ráðstefnunnar er „Misstu ekki af framtíðinni“ en þar munu innlendir og erlendir fyrirlesarar fjalla um þessi mál frá mismunandi sjónarhornum. Þeirra á meðal eru Anne Marie Engtoft Larsen frá Alþjóðaefnahagsráðinu (World Economic Forum) og Liselotte Lingsø sem er framtíðarfræðingur og ráðgjafi hjá fyrirtækinu Future Navigator í Danmörku. Ráðstefnan er öllum opin en skrá þarf þátttöku fyrirfram á vef Bandalags háskólamanna, bhm.is.