Þarf átök?

Grein Friðriks Jónssonar, formanns BHM, í Viðskiptablaðinu 04.08.22

Það er kjaravetur fram undan. Flestir samningar á almennum markaði renna út í lok október og á opinberum markaði í lok mars. Á fjórða hundrað samninga þarf að endurnýja eða endurgera með einum eða öðrum hætti til þess að halda friði, stöðugleika og fyrirsjáanleika á íslenskum vinnumarkaði. Á sama tíma er verðbólga hér að nálgast tveggja stafa tölu og líklegt að hún rjúfi þann múr þegar í þessum mánuði. Stríð geisar á meginlandi Evrópu og enn eru ýmsar áskoranir í kjölfar Covid að hrjá heimshagkerfið.

Þrátt fyrir þessar áskoranir stendur Ísland tiltölulega vel að vígi. Atvinnuleysi hefur dregist hratt saman við enduropnun hagkerfisins, en þó lifa áskoranir tengdar langtímaatvinnuleysi og þarfnast sérstakrar aðgæslu og aðgerða. Við eigum þó tól sem hægt er að styrkja og nýta betur í þeim efnum, eins og Virk starfsendurhæfingarsjóð. Hugsanlega má styrkja þann sjóð og lækka þröskuld til að nýta þá þjónustu.

Skuldastaða ríkissjóðs er um margt öfundsverð. Þar eru þó blikur á lofti hvað varðar sjálfbærni til lengri framtíðar, sérstaklega við óbreytt viðmið fjármálastefnu og fjármálaáætlunar um afkomu og skuldsetningu hins opinbera. Hækkun vaxta, bæði innlendra og erlendra, eru fljót að hafa áhrif á sjálfbærni ríkisfjármála, og því mikilvægt að skuldsetning ríkissjóðs þjóni tilgangi fjárfestinga sem skila samfélagslegum ávinningi til lengri tíma. Daglegur rekstur ríkissjóðs þarf að vera sem mest sjálfbær og því þarf að tryggja betra jafnvægi milli skattlagningar vinnuafls og fjármagns á næstu árum.

Aðilar vinnumarkaðar þekkja án efa einna best ástand og horfur í íslensku efnahagslífi. Hvar skóinn kreppir, hvar svigrúm er best og hvaða áhrif einstaka aðgerðir hafa bæði sértækt og almennt. Samt er tilhneiging og upptaktur fyrir kjarasamninga ávalt að það stefni í meiriháttar átök. Því miður virðist upptaktur fyrir komandi samninga stefna í sama farveg. Hér er ekki flotið sofandi að feigðarósi og nánast eins og sum hlakki til fararinnar.

Á endanum er samt alltaf samið. Ávinningur átakanna mismikill og oft má einmitt velta fyrir sér hvort endanleg niðurstaða hafi einmitt ekki verið fullkomlega fyrirsjáanleg strax á upphafsreit. Sem aftur leiðir hugann að því hvort það mikilvæga verkefni að tryggja frið á vinnumarkaði geti ekki farist okkur sem það verkefni er falið betur úr hendi.

Þegar þetta er skrifað hristist borðið vegna jarðhræringa. Við búum í landi þar sem náttúruvá af ýmsu tagi er nánast daglegt brauð. Sem samfélag búum við yfir ákveðinni seiglu þegar kemur að því að mæta þeim áskorunum sem móðir náttúra sendir okkur. Engu að síður er stundum eins og ákveðin værukærð grípi um sig. Eldgosin undanfarið hafa verið mestmegnis krúttleg túristagos eða það fjarri mannabyggðum að lítið hefur verið að óttast. Það verður ekki alltaf þannig.

Að sama skapi er værukærð ekki valkostur þegar kemur að því að verja hagsmuni launafólks og sjálfstætt starfandi. Núverandi ástand kallar að mínu mati á aðra nálgun. Í tveggja stafa verðbólgu umhverfi er ekki ásættanlegt að horfa fram á hefðbundinn drátt í gerð kjarasamninga – að það geti liðið allt frá hálfu til eins árs frá því að kjarasamningar renna út þar til nýir liggja fyrir.

Hefðin er sú að verkalýðshreyfingin sækir, fulltrúar atvinnurekenda verjast og stjórnvöld tefja. Engin sýnir að fullu á spilin nema í fulla hnefana, og jafnvel ekki þá. Traust á milli aðila – og jafnvel innan hópa þeirra – virðist oft af skornum skammti.

Í sem einfaldastri mynd er verkefnið að greina og meta þann vanda eða áskorun sem vinnumarkaðurinn stendur frammi fyrir, leggja fram leiðir til lausnar, velja á milli þeirra leiða og gera sem mest úr kostum þeirrar leiðar sem valin er, samhliða því að dregið er úr ókostunum. Því engin leið eða lausn er fullkomin. Til þess að svo megi verða þarf að ríkja traust og virðing milli aðila. Traust byggir annars vegar á fyrri reynslu af samskiptum og samningum, en líka því hvort nálgun að nýju byggir á gagnsæi, hreinskiptni og raunverulegum vilja til lausna.

Hér gætu stjórnvöld leikið lykilhlutverk. Vissulega er hjálplegt að fulltrúar aðila vinnumarkaðar, seðlabanka og stjórnvalda mætist við borð þjóðhagsráðs, en þar þarf kannski meira til en skipti á upplýsingum og skoðunum. Það skal líka viðurkennast að fulltrúar heildarsamtaka launafólks sitja við það borð án formlegs samningsumboðs. En virkari skoðanaskipti á þeim vettvangi og skýrari umræður um hvernig við nálgumst verkefni vetrarins gætu verið öllum aðilum gott veganesti. Það hefur t.d. sértæk umræða og lausnaleit um áskoranir á húsnæðismarkaði leitt í ljós. Meira þannig.

Það felst áhætta í áræðni og frumkvæði. Að bíða og sjá er oft þægilegra, og kannski hefðbundnara hjá stjórnvöldum, þegar kemur að kjarasamningum. En kannski er tímabært að reyna eitthvað nýtt. Því fyrr sem við náum árangri á þeim vettvangi, því betra. Fyrir launafólk, fyrir atvinnurekendur og fyrir stjórnvöld. Vogun vinnur.

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími þjónustuvers:
mán. til fim. 9:00 - 15:00,
fös. 9:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00,
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt